Síðan viðreisnarstjórnin glataði hugrekki og framtaki sínu árin 1963 og 1964 hafa allar ríkisstjórnir verið eins hér á landi. Flokkarnir hafa skipzt á setu í þeim. Þær hafa verið skírðar til vinstri og hægri, en fyrir gýg.
Þær hafa ekki spillt hinu góða, sem viðreisnarstjórnin kom í verk á allra fyrstu árum ævi sinnar. En þær hafa fáu bætt við, um leið og þær hafa þanið opinber umsvif út í hött, verðbólgunni til vegsemdar.
Athyglisvert er að bera saman ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen við ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar, sem fór frá fyrir hálfu þriðja ári. Þá ríkisstjórn skipuðu raunar bæði Gunnar og Ólafur Jóhannesson, núverandi ráðamenn.
Ríkisstjórn Geirs tapaði kosningunum 1978 á mjög svipuðum aðgerðum og þeim, sem ríkisstjórn Gunnars hefur nú efnt til. Munurinn er sá, að þá fór allt í háaloft, en nú láta menn sér skerðingu lífskjara vel líka.
Skoðanakannanir Dagblaðsins hafa sýnt, að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar njóta fylgis tveggja af hverjum þremur kjósendum, sem afstöðu hafa tekið, – og ríkisstjórnin sjálf fylgis þriggja af hverjum fjórum.
Engin leið er að skýra þetta misræmi á einfaldan hátt. Engin ástæða ein megnar að skýra stjórnarfallið fyrir hálfu þriðja ári í samhengi við feiknarlegar vinsældir ríkisstjórnar, sem nú gerir nokkurn veginn hið sama.
Þá heimtaði Alþýðusambandið “samningana í gildi”, að undirlagi ráðamanna Alþýðubandalagsins. Nú er sambandið hið rólegasta, því að Þjóðviljinn hefur sagt því, að þetta séu “skipti á jöfnu”. Er þessi kúvending mikilvæg?
Afstaða Alþýðusambandsins skiptir nokkru máli. Kjósendur eru vafalaust fegnir að sjá fram á næstum almennan vinnufrið árin 1980 og 1981 í röð. Það eykur öryggistilfinningu manna og kemur fram í auknum stuðningi við ríkisstjórnina.
Hingað til hefur afstaða Alþýðusambandsins byggzt á stjórnarsetu Alþýðubandalagsins, hvað sem síðar verður. Þá er spurning lýðræðisins sú, hvort ekki sé hægt að hafa vinnufrið í landinu, nema Alþýðubandalagið sé í stjórn.
Óneitanlega verður Alþýðubandalagið mun spakara á því að sitja annað veifið í stjórn. Forustumenn þess verða værukærir og húsum hæfir. Síðan fá þeir aftur útrás með stóru orðin og yfirboðin, þegar þeir eru utan stjórnar.
Ekki nægir þó þessi skýring, né heldur sú, að Dagblaðið styðji þessa ríkisstjórn, en hafi verið andvígt hinni. Staðreyndin er nefnilega sú, að Dagblaðið er sífellt að gagnrýna núverandi stjórn og efnahagsaðgerðir hennar.
Verið getur, að tímamót hafi orðið í viðhorfi fólks á þessum tíma. Það hafi til dæmis áttað sig á, að flokkarnir séu nokkurn veginn eins og að ekki sé að marka stóru orðin. Það sætti sig þess vegna við takmarkaðar lausnir.
Slík hugarfarsbreyting mundi sjálfkrafa leiða til, að kjósendur færu meira að meta persónur en stefnuskrár. Þeir telji sig geta treyst ákveðnum persónum frekar en öðrum, þegar ljóst er orðið, að allar stefnuskrár eru lygar.
Að öllum þessum hugsanlegu útskýringum samanlögðum verður að játa, að þær ná skammt til skýringar á viðfangsefninu. Því er hér auglýst eftir öðrum og betri skýringum á einstæðu dálæti þjóðarinnar á núverandi ríkisstjórn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið