Hvað heitir togarinn?

Greinar

Einhvers staðar hækkaði hinn frægi togari bjartsýnismanna á Þórshöfn úr 1,5 milljörðum gamalla króna í 3,5 milljarða. Og um leið gleymdist að selja úr landi annað skip, þótt sú hafi verið reglan í nokkur ár.

Engin leið er að komast að, hvers vegna þetta skip er keypt. Ekki hefur verið mótmælt fullyrðingum um, að togarinn muni tæplega afla fyrir hlut og örugglega ekki krónu upp í vexti og afborganir.

Útgerð skipsins mun verða þungur baggi á sveitarsjóði Þórshafnar og um leið á útsvarsgreiðendum staðarins. Sveitarfélagið er nefnilega útgerðaraðili og gerir í þessu tilviki út á þorsk og skattgreiðendur.

Þórshafnarbúar hafa nýlega reynslu af togara, sem gerður var út á atvinnuástandið á staðnum. Þá fór svo, að manna varð togarann utanbæjarmönnum til að koma honum á flot. Sú útgerð reyndist hið mesta feigðarflan.

Það kemur ekki á óvart, að hinir sömu útgerðarmenn eru enn á ferð að þessu sinni og hafa komið skipi sínu úr 1,5 milljörðum í 3,5 milljarða. Ætlunin virðist vera sú að slá eigið Íslandsmet í brennslu verðmæta.

Þetta kemur fleirum við en útgerðarmönnunum. Hinn nýi togari mun valda því, að minna verður til skiptanna milli annarra togara. Hann verður því áfall fyrir öll útgerðarfélög landsins og um leið fyrir þjóðina í heild.

Á þessu ári hafa takmarkanir á veiði togara aukizt svo, að nærri annar hver dagur er orðinn banndagur. Á sama tíma er verið að kaupa ný skip, ekki aðeins til Þórshafnar, þar á meðal til Reykjavíkur.

Bæjarútgerð Reykjavíkur hefur að undanförnu gengið nokkuð vel, einmitt vegna þess að togarar hennar voru meðal hinna fyrstu í skutskipaskriðunni og fengu tækifæri til að borga sig niður áður en allt fór á hvolf.

Þórshafnarstefna skipakaupamanna Bæjarútgerðarinnar mun hins vegar leiða til taprekstrar á kostnað útsvarsgreiðenda í Reykjavík. Fyrirfram er vitað, að hin nýju skip munu ekki veiða fyrir vöxtum og afborgunum.

Hvað eftir annað hefur verið reynt að komast að raun um, hvernig skip á borð við Þórshafnartogarann eru keypt í trássi við lög og reglugerðir, heilbrigða skynsemi og þjóðarhag. Og aldrei fást nein svör af viti.

Um daginn kom fram á alþingi, að togari þessi væri keyptur á þremur auðum ávísunum, einni útgefinni af þingmönnum kjördæmisins, annarri af ríkisstjórninni og hinni þriðju af Framkvæmdastofnun ríkisins.

Sverrir Hermannsson reyndi að verja þetta með gengissigi síðasta árs. Þegar hækkun úr 1,5 milljörðum í 3,5 er skýrð með gengissigi, liggur í augum uppi, að þar hlýtur að vera á ferð forstjóri hins efnahagslega vitlausraspítala.

Á alþingi kom líka í ljós, að útgefendur hinna auðu ávísana vísa hver á annan og þykjast hvorki vita né skilja neitt. Í bezta lagi láta þeir í ljósi von um, að æðri máttarvöld fái samningum um togarakaupin rift.

En því miður er málið svo langt komið, að einungis er eftir að gefa togaranum nafn, líklega eftir einum af eigendum ávísanareikninga almennings. Hvort verður nafnið Stefán Valgeirsson, Steingrímur Hermannsson eða Sverrir Hermannsson?

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið