Sovézku öldungarnir í sjónvarpskvikmynd gærkvöldsins voru óhugnanlega raunverulegir, þótt myndin væri leikin. Áhorfendum rann kalt vatn milli skinns og hörunds, þegar þeir þrömmuðu til hinna óhlýðnu, tékknesku jarla sinna.
Sjónvarpið endursýnir þessa mynd á réttum tíma. Spennan í Póllandi hefur vaxið, síðan hún var fyrst sýnd um miðjan desember. Jafnframt hefur aukizt hættan á, að Sovétríkin endurtaki fyrri hernað í Austur-Evrópu.
Kvikmyndin var gerð eftir frásögn Mlynars, samstarfsmanns Dubceks, er hann var orðinn landflótta á Vesturlöndum. Hún er engan veginn hlutlaus, en sýnir þó einkar vel tvískinnunginn í Austur-Evrópustefnu Sovétríkjanna.
Á yfirborðinu er látið líta svo út, sem þar séu sjálfstæð ríki í tengslum hugsjóna og efnahags við Sovétríkin. Þessi sjónhverfing er látin gilda, meðan lepparnir í Austur-Evrópu taka ekki upp á að trúa henni sjálfir.
Hinir öldruðu glæpamenn í Kreml töldu, að heimamenn hefðu farið yfir strikið í Ungverjalandi 1956 og Tékkóslóvakíu 1968. Og þeir eru nú komnir á fremsta hlunn með að ákveða Pólverja hafa farið yfir strikið að þessu sinni.
Verkalýðshreyfingin Eining hefur ekki lengur sömu tök á málum og áður. Kaþólsku kirkjunni og mönnum eins og Walesa hefur ekki tekizt að hafa hemil á hinum róttækari öflum hreyfingarinnar, þrátt fyrir mikla viðleitni.
Brotizt hafa út verkföll í trássi við vilja forustu hreyfingarinnar. Þar hafa m.a. verið hafðar á lofti pólitískar kröfur á borð við brottvikningu spilltra ráðamanna. Og þær eru hættulegri en deilan um laugardagana.
Ef pólska verkalýðshreyfingin deilist í mismunandi óþolinmóða hópa með ólíkar kröfur, er næsta öruggt, að sovézku öldungarnir munu telja pólsku jarlana hafa misst tökin á ástandinu, svo að innrásar sé þörf.
Sú innrás verður blóðugri en þær í Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu. Hún verður óhugnanleg eins og í Afganistan, því að Pólverjar munu verja hendur sínar. Allur þorri hermanna og verkamanna mun snúa bökum saman.
En við sjáum frá Afganistan, að öldruðu glæpamennirnir láta sér ekki bregða við slíkt. Þeir vita sig hernaðarlega sterkari. Og þeir verða ekki í vandræðum með að útvega sér nýja Husaka, Karmala og Quislinga.
Stríðsvélin er hinn eini máttur Sovétríkjanna. Hagkerfið og hugmyndafræðin eru gjaldþrota. Menn sækja ekki lengur fyrirmyndir til Moskvu, aðrar en hvernig megi kúga og drepa fólk og þjóðir í nafni kommúnismans.
Sovézku öldungarnir eru svo forstokkaðir, að þeir hneykslast, ef ætlazt er til, að þeir standi við eigin undirskriftir mannréttindakafla Helsinkisamningsins. Og hver sá heimamaður, sem vill, að orð skuli standa, er tekinn fastur.
Sovézka kerfið er orðið eins og Sparta fornaldar, sérhæft og sjálfvirkt kerfi, sem ekkert getur vel gert nema stunda ofbeldi, heyja stríð, kúga fólk og drepa, unz kerfið springur eða heimsyfirráðum er náð.
Samningafundir nefnda Brezhnevs og Dubceks flokksformanna í kvikmyndinni í gærkvöldi gáfu mikilvæga innsýn í hugarheim hinna öldruðu glæpamanna í Kreml, sem eru eina verulega ógnunin við heimsfriðinn nú á tímum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið