Setið að flugskýla-snæðingi.

Greinar

Alþýðubandalaginu var svo brátt að komast í þá ríkisstjórn, sem nú er við völd, að því láðist að berja inn í stjórnarsáttmálann ákvæði um neitunarvald gegn framkvæmdum hins svonefnda varnarliðs á Keflavíkurflugvelli.

Auðvitað getur Alþýðubandalagið í staðinn haft á lofti hótanir um brottför úr ríkisstjórninni, ef Ólafur Jóhannesson utanríkisráðherra heldur ótrauður áfram ýmsum fyrirhuguðum og nauðsynlegum framkvæmdum þar syðra.

Gallinn við slíkar hótanir er þó sá, að Alþýðubandalaginu líður mæta vel í ríkisstjórninni. Mikið má ganga á í varnarmálum, að ráðherrar bandalagsins standi upp úr stólum sínum, hvað sem Ólafur Ragnar Grímsson segir.

Alþýðubandalagið hefur orkuráðherrann og getur með honum búið til orkuskort, samanber tilraunir hans til að tefja virkjun Hrauneyjarfoss um eitt ár. En bandalagið hefur ekki varnarmálaráðherra í ríkisstjórninni.

Að vísu er mjög dónalegt af utanríkisráðherra að segja alþýðubandalagsmenn munu éta hin nýju flugskýli á Keflavíkurvelli eins og annað. Oft má satt kyrrt liggja, ekki sízt í nærveru viðkvæmra sálna herstöðvaandstæðinga.

Ástæðulaust var að nudda Alþýðubandalaginu upp úr stjórnarfíkn þess, því að svo má deigt járn brýna, að bíti. Ólafur Jóhannesson átti ekki að strá salti í sár þess, heldur tala út og suður, svo sem hann hefur þjálfun til.

Hið sama átti hann að gera í máli olíustöðvarinnar fyrirhuguðu í Helguvík. Hann átti aldrei að ljá máls á, að olíustöðin hefði einhverja endanlega stærð, sem væri fjórum sinnum meiri en núverandi geymslurými.

Ólafur átti einfaldlega að samþykkja einn áfanga Helguvíkurstöðvar, jafnstóran núverandi geymslurými. Síðan mátti samþykkja meira, þegar Alþýðubandalagið er utan stjórnar. Smíði olíustöðvar tekur langan tíma, en ríkisstjórnir koma og fara.

Ólafur Jóhannesson hefur með ógætilegu orðbragði og ákvörðunum æst órólegu deildina í Alþýðuhandalaginu. Þar með hefur hann stofnað í hættu bráðnauðsynlegum framkvæmdum og sýnt vítavert ábyrgðarleysi.

Fráleitt væri að láta Alþýðubandalagið komast upp með að búa til varnaskort ofan á orkuskortinn. Þess vegna er nauðsynlegt, að utanríkisráðherra hafi sem fæst og loðnust orð um það, sem hann er að gera í varnarmálum.

Alþýðubandalagið hefur of lengi getað tafið fyrir eðlilegum aðskilnaði borgaralegs og hernaðarlegs flugs hér á landi . Það má ekki til viðbótar komast upp með að tefja fyrir auknu öryggi í olíubirgðum flugvallarins.

Í framhaldi af flugstöðinni og olíustöðinni er smíði flugskýla hið ómerkilegasta mál. Enda segir Garðar Sigurðsson, alþingismaður Alþýðubandalagsins: “Varla er hægt að búast við því, að flugvélarnar séu geymdar úti.”

Þótt landvarnir séu hér í rauninni að mestu leyti nafnið tómt, verða stuðningsmenn þeirra þó að skilja mikilvægi þess að virkja og þjálfa Alþýðuhandalagið í setu í vestrænt sinnuðum ríkisstjórnum.

Hinn óbeini Natóstuðningur Alþýðubandalagsins er svo mikilvægur traustu stjórnarfari hér á landi, að utanríkisráðherra hefur vel efni á að vanda betur orðbragð sitt, þegar hann segist ekki taka neitt mark á Alþýðubandalaginu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið