Nú hafa stjórnmálamenn kjörið tækifæri til að komast að raun um, hvers vegna umtalsverður hluti kjósenda fyrirlítur þá vegna heimsku og spillingar, telur þá einskis trausts verða og vill ekkert hafa saman við flokka þeirra að sælda.
Kaup Þórshafnartogarans eru eðlilegt framhald Kröfluævintýrisins og Víðishússins. Mikill fjöldi stjórnmálamanna er nú sem fyrr á kafi í sjúklegum fyrirgreiðslum, sem eru jafnheimskulegar og þær eru spilltar.
Í öllum þessum tilvikum komst upp um kauða í miðju kafi. Kjósendur urðu mjög reiðir, en fengu ekki að gert. Stjórnmálamennirnir settu undir sig hausinn og fóru sínu fram á þeim forsendum, að ekki yrði aftur snúið.
Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra segir, að kasta verði að öðrum kosti út um gluggann peningum í skaðabótakröfur vegna riftunar samninga. Slíkt væri þó ódýrara en fyrirhugaður taprekstur á kostnað skattgreiðenda.
Ragnar Arnalds fjármálaráðherra segist alltaf hafa litið svo á, að 1500 gamalmilljóna stuðningi við innlendar skipasmíðar ætti að hluta að verja til kaupa á Þórshafnartogaranum! Slík orð ætti að varðveita gullnu letri á veggjum alþingis.
Ekki sakaði, þótt svo sem tveir ráðherrar fykju út um gluggann með skaðabótafénu, þeir Ragnar og Steingrímur. Enda kallar iðnaðarráðherrann málið “yfirgengilegt” og forsætisráðherrann kallar það “mistök”.
Svo að segja allir eru sammála um, að verið sé að kaupa til Þórshafnar of dýran togara, sem muni valda hundraða milljóna gamalkróna tapi á ári, á kostnað Þórshafnarbúa, Norðlendinga eystri og skattgreiðenda í heild.
Á Þórshöfn eru margir andvígir þessum kaupum, af því að þeir átta sig á, að fyrirgreiðslan er bjarnargreiði, að hún er blóðtaka, sem rýrir aðra möguleika heimamanna á að byggja upp traust atvinnulíf.
Á Norðurlandi eystra eru margir andvígir þessum kaupum, af því að þeir átta sig á, að kaupin fjölga skrapdögum um fimm hjá hverjum togara, sem fyrir er í kjördæminu, þar á meðal samtals 20 skrapdögum hjá Útgerðarfélagi Akureyringa einu.
Um allt land eru menn andvígir þessum kaupum, af því að þeir átta sig á, að þau spilla afkomu útgerðar og sjómanna, að þau eru ekkert annað en útgerð í vasa skattgreiðenda og að þau byggjast á mistökum stjórnvalda.
Ráðamenn þjóðarinnar í ríkisstjórn og Framkvæmdastofnun ríkisins hafa verið gerðir að fíflum í máli þessu. Hið eina skynsamlega, sem þeir geta nú gert, er að viðurkenna staðreyndir og snúa við blaðinu.
Í síðasta lagi verða þingmenn að fella togaraklausuna, sem Ragnar Arnalds hefur sett í 12. grein frumvarps til lánsfjárlaga. Þeir verða að gera það til að hefja baráttu fyrir endurreisn virðingar alþingis og stjórnmála.
Þingmenn eiga að vera búnir að læra sína lexíu af mistökum á borð við Víðishúsið og Kröflu. Þeir eiga að skilja, að gremja kjósenda vegna heimsku og spillingar er mikil og vaxandi og leitar fyrr eða síðar útrásar.
Að öðrum kosti ættu stjórnmálamennirnir að skipta um standmynd á Austurvelli og setja þar upp styttu Stefáns Valgeirssonar sem tákn hins dæmigerða stjórnmálamanns þjóðarinnar á tuttugustu öld.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið