Alþingi hefur enn tækifæri til að lýsa yfir, að það hafi hvorki fallizt á skrefatalningu símtala, né ályktað neitt, er túlka mætti sem slíkt samþykki. Ennfremur getur alþingi lýst yfir, að það hafni slíkri talningu.
Þetta getur alþingi með því að samþykkja strax einfalda þingsályktunartillögu um að fela samgönguráðherra að stöðva umsvifalaust tengingu búnaðarins meðan alþingi fjalli um málið. Í framhaldi af þessu getur alþingi hreinlega sett lög um, að símtöl skuli ekki vera skrefatalin.
Alþingi hefur raunar harma að hefna. Skrefatalningin byggist nefnilega á rangtúlkun símamálastjóra á þingsályktun frá 28. marz 1974, þar sem ráðherra var falið að vinna að jöfnun innansvæðissímtala um allt land og að lækkun símatalagjalda úr dreifbýli til Reykjavíkur.
Í þessari ályktun er hvergi minnzt á skrefattalningu, hvorki fyrir höfuðborgarsvæðið né önnur símasvæði. Hún bendir raunar á allt aðrar aðferðir til jöfnunar á símakostnaði landsmanna, enda hefur símamálastjóra ekki tekizt að verja frumhlaupið.
Án formlegs samráðs við ráðherra leitaði símamálastjóri árið 1978 tilboða í skrefatalningarbúnað. Að fengnum þeim tilboðum lagði hann 8. febrúar 1979 til við ráðherra, að skrefatalning yrði tekin upp á höfuðborgarsvæðinu.
Í bréfinu segir hann þetta vera “visst réttlætismál, sem gæti haft verulega stjórnmálalega þýðingu”. Hvorki hann né ráðherra tóku þó tillit til, að alþingi beri að fjalla um mál, sem hafi stjórnmálagildi.
Ragnar Arnalds tók á sig ábyrgðina með því að samþykkja 16. febrúar 1979, að tekin yrði upp þriggja mínútna skrefatalning á höfuðborgarsvæðinu. Með því tók hann pólitíska ákvörðun, sem með réttu á að vera í höndum alþingis.
Ráðherra játaði samþykkt sínu í svari við fyrirspurn á alþingi 22. maí 1979. Laumuspil hans og símamálastjóra hélt þó áfram, því að í næsta fjárlagafrumvarpi var talað um kostnað við “Karlsontalningu” til þess að hindra þingmenn í að skilja, að þetta væri skrefatalning.
Þetta tókst. Þingmenn samþykktu Karlsontalningu án þess að hafa hugmynd um, hvers konar fyrirbrigði það væri. Það sýnir, að stundum hefur enginn þeirra minnstu hugmynd um, hvaða útgjöld þeir eru að samþykkja.
Skrefatalningin er liður í tilraunum símamálastjóra að koma verðhækkunum sínum undan verðlagseftirliti. Hann sættir sig ekki við hinar þröngu peningaskorður, sem sífelldar verðstöðvanir leggja öðrum á herðar.
Hingað til hefur hann einkum beitt þeirri aðferð að fækka skrefunum, sem falin eru í afnotagjaldinu, auk þess sem hann lætur tvíborga og margborga suma sérþjónustu. Alltaf hafa lygar og laumuspil fylgt þessum gerðum.
Nú hyggst hann ná sér til viðbótar í tekjustofn, sem felst í styttingu skrefatímans. Í upphafi á hann að vera sex mínútur, en áður en við vitum af, verður hann búinn að koma honum niður í þrjár mínútur.
Því miður skammast þingmenn sín svo mikið fyrir að hafa ekki skilið, hvað Karlsontalning væri, að þeir þora ekki að játa það. Þess vegna munu þeir ekki nota tækifærið til að snúa við blaðinu og bæta mistökin.
En með ábyrgðarleysinu axla þeir ábyrgðina með .lóni Skúlasyni og Ragnari Arnalds.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið