Mindich I

Umræða
Mindich I

David T. Z. Mindich
Tuned Out
Why Americans Under 40
Don’t Follow the News,
2005

Formáli

Af 23 nemendum, sem hann talaði við, gátu 18 ekki nefnt neinn hæstaréttardómara. Sú breyting hefur orðið síðan 1970, að ungt fólk veit nánast ekkert um mikilvæg málefni. Fyrir 1970 vissi ungt fólk næstum eins mikið og eldra fólk.

Komnar eru á vettvang tvær kynslóðir fullorðinna, sem vita svo lítið, að þær hafa óljósar hugmyndir um atriði, sem þeim ber að vita til að geta staðið undir kosningarétti. Tvær kynslóðir hafa “tuned out” og eru ekki að koma inn aftur.

Viðmælendur mínir voru hissa á, að jafnaldrar þeirrar fylgdust ekki með fréttum. Sumir töldu ranglega, að svo hefði alltaf verið. Fyrir 1970 fylgdist ungt fólk með almennum fréttum og stjórnmálafréttum. En ekki lengur.

Aðrir töldu ranglega, að fólk fengi fréttir úr sjónvarpi. Meðalaldur áhorfenda CNN er í rauninni um 60 ár. Enn aðrir töldu ranglega, að það væri af internetinu. Aðeins 11% ungs fólks notar fréttir á internetinu.

Kynslóðaskipti

Þegar eldra fólk sér nafnlausa frásögn um einvígi, veit það úr fréttum, að verið er að tala um George W. Bush og Al Gore. Fólk undir fertugu telur hins vegar, að verið sé að tala um Ruben Studdard og Clay Airken úr American Idol.

40 milljónir horfðu á American Idol, 37 milljónir á síðara sjónvarpseinvígi Bush og Gore. Þetta var kynslóðaskiptur munur. Annars vegar eru hinir eldri, sem eru hefðbundnir borgarar, og hins vegar tvær kynslóðir skemmtanafíkla.

Á sama tíma og flestir í þessum yngri kynslóðum eiga auðvelt með að ryðja upp úr sér nöfnum þriggja dómara í American Idol, Simon Cowell, Paula Abdul og Randy Jackson, geta þeir ekki stunið upp nafni eins einasta dómara í hæstaréttinum.

70% eldri Bandaríkjamanna lesa dagblað á hverjum degi í samræmi við vana frá þeim tíma, þegar þeir voru ungir. Af þeim, sem eru ungir í dag, lesa aðeins 20% dagblað á hverjum degi. Ekkert bendir til, að það muni breytast með aldrinum.

CNN hefur lagt sérstaka áherslu á að laga framsetningu sína að ungu fólki. Samt er meðalaldur áhorfenda 59-64 ár, fólk, sem er að fara á ellilaun. Og ungt fólk notar internetið til alls annars en að lesa fréttir. Ungt fólk hafnar fréttum.

Þekktur prófessor lýsti þessu svo, að nemendur hans væru ólæst grænmeti. “Ég er orðinn þreyttur á að vökva grænmetið á hverjum degi” sagði hann og ennfremur, að nú væri kominn tími fyrir sig að setjast í helgan stein, sem betur fer.

Traust manna á fjölmiðlum hefur hrapað. Síðan 1989 hefur traustið hrapað úr 54% í 36%. Á sama tíma hefur traust manna á hernum risið úr 20% upp í 75%. Margt ungt fólk kvartar yfir, að ekki sé hægt að treysta því, sem stendur í fjölmiðlum.

Í bókinni Why Americans Hate Politics kennir E.J. Dionne áhyggjulausum skorti á sjálfsgagnrýni ungs fólks um þessar breytingar. Það skrítna er, að einmitt þeir, sem geta verið áhyggjulausir, eru hinir gömlu og ríku, sem fylgjast með fréttum.

Ef til vill er frekar um að ræða meinta einangrun frá hinu pólitíska ferli. Algengt er, að ungt fólk telji stjórnmál siðlaus og án sambands við almenning. Það er því kannski nær að tala um örvæntingu heldur en áhyggjuleysi.

Hálftíma lestur á New York Times eða Wall Street Journal ætti þó að geta sannfært fólk um, að góð blaðamennska sé til í Bandaríkjunum. Þar eru skýrar fréttir á góðu máli um hvaðeina, sem er ofarlega á baugi í Bandaríkjunum og erlendis.

Hverjir voru á vaktinni í Watergate, hverjir vöktuðu stríðið í Víetnam? Hverjir sögðu frá Iran-Kontra hneykslinu, hverjir lýstu hruni Sovétríkjanna, Persaflóastríðinu, auknum mun fátækra og ríkra. Það voru auðvitað fjölmiðlarnir.

Áhugaleysið á fréttum fer saman við fækkun í frjálsum félögum, stéttarfélögum, kirkjukórum, Rótarýklúbbum. Færra fólk býður til kvöldverðar, talar á fundum, fer í kirkju eða leikhús. Opinbert líf fólks í Bandaríkjunum verður fátæklegra.

Það er einmitt sama fólkið, sem tekur þátt í frjálsum félögum, og það, sem notar fréttir. Það er sama fólkið, sem skrifar þingmanninum bréf, og það, sem tekur klukkutíma í að lesa blöðin. Þetta er fólkið, sem tekur þátt í samfélaginu.

Minni notkun frétta fer saman við aukna notkun sjónvarps. Meðaláhorf á dag hefur hækkað úr 4,5 tímum upp í rúmlega 7 tíma. Það er ekki áhorf á fréttir, sem eykst, heldur á skemmtiefni af ýmsu tagi. Sjö tímar á dag gefa ekki tíma í annað.

Minni notkun frétta fer líka saman við meiri búsetu í úthverfum einbýlishúsa. Á sífellt lengri leið milli heimilis og vinnu, hlustar eldra fólkið á fréttir, en yngra fólkið á tónlist. “Úthverfin eru sameiginleg tilraun til einkalífs.”

Samfélagið stendur og fellur með fréttum. Ríki Alexanders mikla féll að honum látnum. Rómarveldi stóðst hins vegar öldum saman, af því að samgöngur voru góðar og fréttaflutningur mikill. Allir vegir lágu til Rómar og frá Róm.

Fólk, sem tekur skemmtun fram yfir fréttir er ólíklegra en aðrir til að taka þátt í starfsemi á vegum sveitarfélaga. Það er líklegra en aðrir til að sýna “road rage” í umferðinni. Og það er líklegra til að trúa eigingjarnt á Mammon en aðrir.

Fjölskyldukvöldverðir hafa breyst í sjónvarpskvöldverði og unga fólkið borðar eitt og sér uppi í herbergi meðan það horfir á sjónvarp. Bandaríkin eru orðin að ópólitískum Balkanskaga, þar sem allt snýst um okkar eigin litla heim.

Blaðamennska tekur mið af þessu. Smátt og smátt hættir hún að miða við meintar þarfir fólks og fer að miða við þrár þess. Á undanhaldi eru grundvallarforsendur blaðamennsku: Staðreyndir, staðfestingar og rannsóknir. Lýðræðið er í hættu.

Smám saman hafa sjónarmið einkalífs orðið sterkari en sjónarmið almannahags. Fólk vill fá að vera í friði fyrir fréttum. Skúrkar vilja ekki láta hnýsast í sín einkamál. Opinberir aðilar reyna að halda skjölum fyrir fjölmiðlum.

Það er hagsmunamál stjórnmálamanna, embættismanna, presta og annarra handhafa valdsins í þjóðfélaginu að amast við tilraunum fjölmiðla til að afla staðreynda. Öflugasta vopn þeirra gegn fjölmiðlunum er að magna víggirðingar einkalífsins.

John Dewey skrifaði: “Enginn maður varð frjáls af því að vera látinn í friði.” Opinbert líf og gegnsæi er eðli lýðræðis. Á tíma internetsins þurfa menn ekki einu sinni að lesa mótdrægar fréttir, þar geta menn sjálfir valið sér fréttir.

Árið 1968 gat Lyndon Johnson sagt um Víetnamstríðið: “Ef ég hef tapað Cronkite, þá hef ég tapað miðjunni í Bandaríkjunum.” Liðin er sú tíð, að þjóðin sameinaðist um Cronkite. Nú sameinast þjóðin um að fylgjast ekki neitt með fréttum.

Þegar menn velja sér sjálfir tegundir og svið frétta á internetinu, spara þeir sér tækifæri til að mæta óvæntum hugmyndum og óvæntum skoðunum, sem hvort tveggja er þó forsenda fyrir lýðræði. Fjölmiðlarnir gefa fólki þetta tækifæri.

Tölfræðin

Merkilegt er og raunar dapurlegt, að traust ungs fólks á fjölmiðlunum fór að daprast um það leyti, er Watergate var í fréttum. Þrátt fyrir ótal uppljóstranir í fjölmiðlum, sem sanna ættu nauðsyn þeirra, hefur traustið á þeim hrunið.

32% fullorðinna hafa áhuga á stjórnmálum, aðeins 13% þeirra, sem eru 18-24 ára. Árið 1968 höfðu 60% nýstúdenta áhuga á pólitík, árið 2000 aðeins 20%. Það er “þunn” þátttaka í borgaralegu líf, þegar fólk lætur sig lýðræði litlu varða.

Áhugaleysi á fréttum á sér þrjár undantekningar hjá ungu fólki. Fréttir af lágmarkslaunum, fréttir af fóstureyðingum og fréttir af íþróttum. Sums staðar í Evrópu eru raunar til dagblöð, sem snúast eingöngu um íþróttir.

Ennfremur hefur komið í ljós, að ungt fólk vill heldur meðtaka fréttir, ef þær eru pakkaðar inn í skemmtun. Helmingur ungs fólks hefur raunar ekki fréttir sínar úr blöðum eða fréttatímum, heldur úr skemmtiþáttum á síðkvöldum.

Hver kynslóð heldur lestrarvenjum, sem hún vandi sig á í upphafi, þegar hún var ung. Þær kynslóðir, sem upp úr 1970 voru fyrstar til að hafna fréttum, eru ekki enn byrjaðar að lesa fréttir. Þær eiga nú börn, sem ekki heldur nota fréttir.

Sérstaklega er alvarlegt, að fólk skuli ekki nota fréttir í blöðum. Hálftíma fréttaþáttur í sjónvarpi kemur 3.600 orðum á framfæri. Gott dagblað er hins vegar með 100.000 orð í fréttum á degi hverjum. Á þessu tvennu er eðlismunur.

Málið er, að dagblöðin hafa haft forustu í fréttaskýringum, rannsóknablaðamennsku og skúbbum. Sjónvarpsstöðvarnar velja svo, hvort þær taka skúbb dagsins úr New York Times, Washington Post eða Wall Street Journal.

Allt sem fólk þarf til að geta verið atkvæðisbærir borgarar er í dagblöðunum. Þar eru fréttaskýringar á fjárlagahalla, skattastefnu, styrjaldaráætlunum, hneykslum í embættisfærslu og allt annað, sem gerir fólki kleift að hafa pólitísk viðhorf.

Nú er svo komið, að ungt fólk talar um “pyndingar”, ef það neyðist til að hlusta á fréttir innan um tónlist. Það eina, sem fólk sættir sig við, eru grófar umræðusýningar að hætti Rush Limbaugh, þar sem fólk rífst, rifrildisins vegna.

Saman fer notkun á fréttum í dagblöðum og fréttum í sjónvarpi. Gamla fólkið notar hvort tveggja, unga fólkið hvorugt. Árið 1993 sáu 60% Bandaríkjamanna fréttir í sjónvarpi, árið 2000 sáu 30% þeirra sjónvarpsfréttir. Internetið er lítið notað.

David T. Z. Mindich
Tuned Out
Why Americans Under 40
Don’t Follow the News,
2005

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé