Gafl-inn

Veitingar

Gafl-inn við Reykjanesbraut í Hafnarfirði er lítil og notaleg 44 sæta tería, sem veitir hálfa þjónustu þeim, sem panta tvíréttað. Aðall hennar er hreinlæti og snyrtimennska. Maturinn er einfaldur og mjög svo frambærilegur.

Ekki er mikið lagt í innréttingar, sem eru þó stílhreinar. Æsilegur, rauður litur er áberandi í veggjum, ljósum og borðplötum, Plastbekkir og pílárastólar eru brúnir. Gluggatjöld eru stutt og skýla gestum lítt fyrir aðvífandi umferð.

Inn af veitingasalnum er eins konar veizlusalur, sem má panta fyrir fundi og veizlur. Hann hefur það umfram hinn, að ekki er útsýni til bíla á plani og hraðrar umferðar Keflavíkurvegar. og þar eru veitt vín, en ekki merkileg.

Matseðillinn í Gafli ber teríusvip. þar er ekkert óvenjulegt og framboð rétta er skynsamlega takmarkað. Þá er einnig í boði breytilegur réttur dagsins með súpu. Að öðru leyti helgast staðurinn af hamborgurum og heimsendinum.

Hrásalatið var úr gulrótum og hvítkáli og fylgdi öllum aðalréttum. Það var ekki vætt, ekki einu sinni úr sítrónusafa, og var því fremur dauflegt. Sama er að segja um þykka og volga Wellington-súpu dagsins með maískornum.

Þær frönsku í lagi

Frönsku kartöflurnar, sem fylgdu sumum réttum, voru ekta, vel steiktar, stökkar hið ytra og mjúkar hið innra, alveg lausar við feitibragð. Á hinum spilltu gervikartöflutímum nútímans er þetta einstaklega ljós punktur.

Grillaðar lambalærissneiðar voru að þessu sinni réttur dagsins, góðar og óvenjulega lítið ofsteiktar, svo að vottaði fyrir roða. Þetta var gott kjöt með fremur góðri sveppasósu og ómerkilegum, en ekki ofsoðnum dósabaunum.

Grillaður kjúklingur var mjög meyr og bragðgóður, í fylgd með sæmilegri kokkteilsósu. Margur dýr staðurinn býður upp á lakari kjúklinga. Heldur síðri voru grillaðar kótilettur, dálítið þurrlegar, en alls ekki seigar.

Innbakaður fiskur var í rauninni djúpsteiktur, kannski vegna misskilnings. Hann var bæði góður og vel heitur, borinn fram með hvítum kartöflum. Hrísgrjónin voru sjóðheit og nákvæmlega hæfilega lítið soðin. Karrísósan fór öllu þessu vel.

Kínversku pönnukökurnar voru þær beztu, sem ég hef fengið hér á landi. Þær voru þunnar og góðar, fullar af hrísgrjónum, kjöti og karrí, mátulega bragðsterkar. Þeim fylgdu sömu, ágætu hrísgrjónin og lýst var hér að framan.

Mínútusteikin var í stórum dráttum rétt matreidd úr góðu hráefni. Hún var borin fram með ágætu sítrónusmjöri og hæfilega létt brúnuðum kartöflum. En hún var allt of mikið pipruð, raunar gasalega pipruð.

Misræmi í verði

Súpa dagsins kostaði 6 krónur, fiskréttir að meðaltali 37 krónur, kjötréttir 71 krónu, ís 10 krónur. Miðlungsverð þriggja rétta máltíðar var 71 króna með kaffi. Þetta ætti að teljast í lægsta verðflokki íslenzkra veitingahúsa.

Hins vegar var réttur dagsins með súpu furðulega dýr, 69 krónur. Til samanburðar má nefna, að réttur dagsins með súpu kostar þó ekki nema 72 krónur í Holti og er helmingi betri, með fullri virðingu fyrir þessum ágæta stað.

Matreiðslan var upp á sex í einkunn, sem er gott af teríu að vera. Umhverfiseinkunnin er líka sex. vínlistinn í innri salnum fær fjóra í einkunn. Þar sem þjónustan er takmörkuð, þótt hún sé góð sem slík, fást þar ekki nema fjórir.

Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, umhverfis- og þjónustueinkunnirnar með tveimur, fást samanlagt 54 heildarstig. Það þýðir, að Gaflinn fær 5,5 í vegna meðaleinkunn, sem er bara mjög gott af teríu að vera.

Jónas Kristjánsson

Vikan