“Þið hafið konu á toppnum,” sagði útlendingaeftirlitsmaðurinn á flugvellinum í Nairobi í Kenya fyrir viku, þegar hann sá þar tvö íslenzk vegabréf. Hann kom til skjalanna hjá passastimplara, sem grunaði þetta vera fölsuð vegabréf frá gervilandi á borð við St. Kilda hans Dunganons.
Útlendingaeftirlitsmaðurinn sagði honum, að óhætt væri að stimpla þessi bréf. “Kenyamenn hafa samt vit á að láta konur ekki stjórna sér“’ sagði hann og hló mikið. Jafnrétti er vissulega ekki í hávegum haft þar syðra. En alltjend vissi hann um Vigdísi Finnbogadóttur.
Vafasamt er, að hann hafi vitað nokkuð um Ísland, áður en Vigdís varð forseti, enda er langur vegur frá Íslandi til Kenya. Þetta dæmi sýnir, að Ísland er nú víðar til á landabréfi en áður var. Fleiri trúa, að landið sé í rauninni til og þá ekki sem nein ímyndun Dunganons.
Erfitt er að átta sig á, hve mikið áþreifanlegt eða óáþreifanlegt gagn Ísland og Íslendingar hafa af því að verða hugtak hjá fjarlægu fólki. Lipurri passaskoðun en ella er bara lítið og persónulegt dæmi. En við segjum, að safnist, þegar saman kemur, og viljum vera til á landabréfi annarra.
Við njótum í þessu ekki aðeins þeirrar staðreyndar, að Vigdís Finnbogadóttir er forseti. Við njótum þess líka, að hún hefur ekki sparað sér neitt erfiði við að taka á móti óslitinni röð erlendra blaðamanna og svara þeim á þann hátt, að vakti aðdáun þeirra, lesenda þeirra og heyrenda.
Samhliða viðtölum við Vigdísi í blöðum og tímaritum, í útvarpi og sjónvarpi, hefur í sömu erlendu fjölmiðlunum birzt annað efni frá Íslandi, ferðasögur, náttúru- og þjóðlífslýsingar í máli og myndum. Þetta hefur gengið svo langt, að jafnvel Kenyamenn vita, að Ísland er til.
Þetta á eftir að koma okkur að gagni í utanríkisviðskiptum og á öðrum sviðum. Óhjákvæmilega verður gagnið þó fyrst áþreifanlegt í ferðamannaþjónustu. Eftir nokkurra ára lægð á því sviði eru bókanir erlendra ferðamanna fyrir sumarið meiri en þær hafa verið. Og það hjálpar líka Flugleiðum.
Upphlaupið í Danmörku út af opinberri heimsókn Vigdísar til Margrétar Þórhildar drottningar var raunverulegt og raunhæft. Þar var ekki aðeins um að ræða lesefni í Alt for damerne um kjóla og kápur, hatta og skartgripi, heldur stórmál í augum Dana, sem aldrei líta í það ágæta blað.
Ferð Vigdísar Finnbogadóttur til Danmerkur var óslitin sigurganga. Hástig hennar var fundurinn í blaðamannaklúbbnum, sem leiftraði af fyndni, skjótum tilsvörum og alþýðleika, einmitt hinum mannlegu þáttum, sem Danir kunna svo vel að meta.
Flogið hefur fyrir, að Vigdís hyggi á opinbera Noregsferð í haust. Það hefur ekki fengizt staðfest, en verður það vonandi. Enginn vafi er á, að hún mun standa sig þar með hinum sama glæsibrag og í Danmörku, okkur öllum til gagns og ánægju.
Í rauninni væri æskilegt, að forseti okkar fengist til að vera sem mest á ferðinni heima og erlendis. Það hefur auðvitað í för með sér meiri kostnað við embættið en áður hefur verið, en slíkt eru smámunir í samanburði við áþreifanlegan og óáþreifanlegan hag okkar.
Forsetinn er okkar bezti sendiherra til að sýna öðrum fram á, að við kunnum að tala, lesa og skrifa; lifum nútíma menningarlífi, byggðu á fornum grunni; höfum sérkennilega náttúru, sem vert er að skoða; og eigum hefðir framleiðslu og viðskipta, sem gera okkur samningshæfa.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið