Þrengt að valdamönnum.

Greinar

Dagblaðið birti í vetur rétta frétt af játningu í morðmáli, þar á meðal af játningu fyrir forstöðumanni sértrúarflokks. Fimm vikum síðar taldi innikróaður forstöðumaðurinn henta sér að halda því fram, að fréttin væri röng. Það var síðbúin uppgötvun forstöðumannsins og röng.

Dagblaðið birti fyrir jól rétta frétt af misheppnaðri tilraun lögreglu til að fá lækni til að láta taka blóðsýni af starfsbróður. Rúmum tveimur mánuðum síðar taldi innikróaður læknirinn henta sér að halda því fram, að fréttin væri röng. Það var síðbúin uppgötvun læknisins og marklaus.

Dagblaðið birti í vetur rétta frétt af skjalfestu ósamkomulagi í skólamálum Bolungarvíkur. Kennari á staðnum telur henta sér að halda því fram, að frétt blaðsins sé röng, án þess að geta fært fram stafkrók því til staðfestingar. Reiðilestur kennarans um málið er marklaus.

Dagblaðið birti í vetur rétta frétt af skjalfestu ósamkomulagi í lögreglumálum Ólafsfjarðar. Fógeti staðarins hefur nú síðast talið henta sér að halda því fram, að frétt blaðsins sé röng, án þess að geta fært fram stafkrók því til staðfestingar. Athugasemd fógetans er marklaus.

Dagblaðið birti í vetur rétta frétt af þungum sökum framangreinds læknis á hendur lögreglu. Þegar í rannsókn var komið, taldi læknirinn henta sér að halda því fram, að rangt væri eftir sér haft, en endurtók þó sömu sakir í eigin blaðagrein. Hringlandi læknisins var marklaus.

Dagblöð, sem flytja lesendum sínum markverðar fréttir, sem valdaaðilar í þjóðfélaginu vilja leggjast á, hafa alltaf verið, eru og munu verða sökuð um æsifréttir, tilfinningaskort, sölugræðgi og vankunnáttu.

Utangátta rannsóknarlögreglustjóri telur jafnvel henta sér að kalla fréttina af morðmálsjátningunni “söluvöru”, þótt hann viti ósköp vel, að henni var ekki slegið upp, heldur var hún birt í minnsta mögulega formi, – sem eindálkur.

Um allt land hefur myndazt fylking reiðra manna, sem telja skrif Dagblaðsins hafa þrengt möguleika sína til að vera í friði með aðstöðu sina og völd. Þeim gremst afskiptasemi Dagblaðsins og telja það ekki eiga að vera með nefið niðri í málum, sem þeir telja sér viðkvæm.

Þegar einn þessara manna kastar steini úr glerhúsi sínu, telja sumir hinna sér fært að koma út úr skúmaskotum sínum. Sú er skýringin á, að margar réttar fréttir Dagblaðsins hafa að undanförnu verið tilefni upphrópana um “æsifréttaskrif”.

Sum dagblöð velja sér þann vettvang að klóra ekki hið minnsta í yfirborðið. Þau birta hinar meinlausu og hversdagslegu fréttir sínar innan um hinn flokkspólitíska skæting og níð, sem þau hafa talið sjálfsagðan hlut frá ómunatíð.

Dagblaðið hefur hins vegar kosið sér að leyfa fólki að skyggnast undir yfirborðið, sjá hina raunverulegu atburðarás að baki sjónhverfinganna, lesa gögn, sem ráðamenn hugðust halda leyndum, og reyna að skilja betur gangverk þjóðlífsins.

Í hvert einasta skipti vaknar upp við vondan draum einhver sá, sem telur Dagblaðið hafa þrengt möguleika sína til að beita aðstöðu sinni og völdum í friði. Þetta er náttúrulögmál, sem við höfum séð að undanförnu í ótal myndum.

Því traustari sem upplýsingar Dagblaðsins eru, þeim mun skrækar hrópa hinir innikróuðu valdamenn um “æsifréttir”. Dagblaðið mun hér eftir sem hingað til láta þessa gremju sem vind um eyru þjóta og halda áfram að starfa fyrir lesendur.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið