Kenningin um, að allt vald spilli og að alvald alspilli, er einn hornsteina lýðræðisins. Á honum byggist skipting ríkisvaldsins í sjálfstæða geira. Einnig takmörkun valds í stjórnarskrá, lögum og reglugerðum. Þannig er valdinu dreift.
Ekki er allur vandi úti, þótt vald sé á fleiri höndum en áður var. Vald hefur tilhneigingu til að þenjast út í tómarúm, unz það mætir öðru valdi. Handhafar valdasneiða keppast við að varðveita þær og færa út kvíar þeirra.
Embættismenn, stjórnmálamenn, félagsmálamenn, peningamenn og ýmsir aðrir hafa skerf af valdi. Þeir snúast gjarna til varnar gegn öflum, sem lýðræðið beitir til að hafa hemil á valdi, takmarka það og höggva af því flísar.
Í harðstjórnarríkjum er slíkum truflunaröflum rutt úr vegi. Í lýðræðisríkjum neyðast handhafar valdasneiða til að beita öðrum aðferðum. Einkum þeirri að reyna að telja fólki trú um, að frjálsir fjölmiðlar valdi friðarspjöllum.
Í þessu eru valdsmenn studdir fjölmiðlum, sem að meira eða minna leyti eru gerðir út sem baráttutæki stjórnmálaflokka. Þessir bundnu fjölmiðlar óttast, að hinir frjálsu muni ryðja sér úr vegi, hér á landi sem annars staðar.
Bundnir fjölmiðlar taka gjarna undir neyðaróp valdsmanna, sem finnst þeir ekki hafa vinnufrið til að verja vald sitt og rækta það. Þeir hamra stöðugt á, að tilvist frjálsra fjölmiðla byggist á “æsifréttum” og “sölumennsku”.
Erlendis skiptir þessi vörn litlu, því að bundnu fjölmiðlarnir eru að verulegu leyti úr sögunni. Hér eru þeir hins vegar enn nokkuð öflugir samanlagt og aðstoða stóra og smáa valdsmenn við að halda upplýsingum frá almenningi.
Frjálsir teljast þeir fjölmiðlar, sem standa utan stjórnmálaflokkanna, samtryggingakerfis þeirra og annarra hliðstæðra valdamiðstöðva í þjóðfélaginu. Þeir hafa tekið að sér að segja fólki, hvað gerist að tjaldabaki.
Dagblaðið hefur haslað sér völl á þessu sviði. Það hefur reynt að segja lesendum sínum frá því, sem raunverulega er að gerast. Það hefur reynt að veita upplýsingar, sem handhafar valdasneiða telja leyndarmál og jafnvel einkamál.
Auðvitað tekst þetta misjafnlega. Einkum er ástæða til að hafa áhyggjur af, að margt fari framhjá, sem almenningur ætti að vita. Þess vegna þarf Dagblaðið aukna aðstoð heimildarmanna, sem starfa innan kerfisins.
Dagblaðið hefur hingað til neitað að segja til slíkra heimildarmanna og mun áfram neita, þótt einstakir valdsmenn reyni að beita hinu opinbera ákæruvaldi til að ná nöfnum þeirra. Frjálsir fjölmiðlar neita slíku alfarið.
Sem betur fer eru sannir lýðræðissinnar þegar orðnir fjölmennir í ýmsum valdageirum. Þeir fyrirlíta leynimakkið og eiga umtalsverðan þátt í “lekanum”, sem veldur því, að ráðþrota embættismenn kvarta undan “æsifréttum”.
Þessum valdsmönnum finnst, að verið sé að horfa yfir öxl þeirra. Þeim finnst skorta vinnufrið til að gegna skyldum sínum. Þeim finnst það vera friðarspjöll, ef almenningur fær að vita um, hvað þeir séu að gera.
Um þessar mundir hafa óvenju margir slíkir æmt á opinberum vettvangi og blásið hver öðrum kjark í brjóst. Vonandi mun Dagblaðið þó áfram hafa styrk til þess hlutverks að láta valdsmenn ekki vera í friði, hver með sína sneið af valdi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið