Hlíðarendi er fallega innréttað veitingahús í húsakynnum við Nóatún, þar sem áður var Sælakaffi. Að utanverðu er staðurinn fremur skuggalegur og fráhrindandi, en þeim mun meira aðlaðandi, þegar inn fyrir dyr er komið.
Dökkar og þungar innréttingarnar hafa á kvöldin sérstaklega þægileg áhrif. Dökkbrúnn litur á veggjum og bekkjum er mest áberandi, en undir spila sauðalitir í prjóni og vefnaði á veggjum og rauður litur í borðdúkum og munnþurrkum.
Hér er mikil áherzla lögð á stíl. Það kemur fram í klæðnaði þjónustuliðs, snyrtilegu skipulagi á bar, blómaskreytingum og kertum á borðum, smekklegum borðbúnaði, merktum Hlíðarenda. Þá eru sætin óvenjulega þægileg.
Ekki hefur óhóflega miklu verið kostað til sumra þátta. Falska tréloftið er til dæmis mjög einfalt í sniðum og smekkleg loftljósin sömuleiðis. Og forngripirnir á breiðum bakveggnum eru framleiddir með nútímatækni.
Bezti vínlistinn
Þegar Vikan prófaði Hlíðarenda, var staðurinn eingöngu opinn á kvöldin og þá sum þeirra með ýmsu tilstandi, sem eiginlega er óviðkomandi veitingastað. En frá mánudegi til miðvikudags máttu gestir eiga von á að vera í friði.
Þjónusta reyndist ósköp þægileg, eftir öllum siðareglum og nægu ísvatni. Það var ekki þjónustunni að kenna, að í húsinu eru fjórir sex sæta básar, þar sem ógerningur er að þjónusta þá, sem innst sitja. Handlang var því óhjákvæmilegt.
Vínlistinn í Hlíðarenda er með hinum beztu, ef ekki sá bezti, sem ég hef séð hér á landi. Þar vantar ekkert af beztu vínunum í Ríkinu, nema Gewürztraminer í hvítu og Chianti Classico Antinori í rauðu. Er hann þó ekki langur.
Í hvítvínum er m.a. boðið upp á Bernkasteler Schlossberg, Hochheimer Daubhaus, Kallstadter Kobnert, Wormser Liebfrauenstift og Edelfräulein, í rauðvínum Chateau de Saint Laurent, Chateauneuf-du-Pape, Trakia og Chateau Talbot.
Of langur matseðill
Matseðillinn er í lengsta lagi, 37 rétta, miðað við möguleika hússins á stöðugu framboði góðra hráefna. enda var nautakjöt ekki til, þegar Vikan prófaði staðinn. Og því miður var ekki boðið upp á neinn matseðil dagsins.
Fátt er spennandi á matseðlinum, nema nafngiftir eftir Njáli og Bergþóru, Gunnari og Hallgerði. Réttirnir eru yfirleitt þeir, sem búast má við á íslenzkum veitingahúsum, ef frá er skilinn kjúklingaréttur, sem síðar verður sagt frá.
Hlíðarendi hefur þá skemmtilegu tilbreytni að bjóða mat fyrir jurtaætur. Það var sojabaunabuff og linsubaunaréttur með t.d. hrásalati. Allt of lítið er um, að tekið sé tillit til sérstakra matarskoðana af slíku tagi.
Hrásalatið var eitt hið bezta í bænum, einfalt, ferskt og nýlagað úr ísbergi, gúrku og papriku og aðeins bragðbætt með sykruðum sítrónusafa. Annar matur prófunarinnar reyndist dálítið upp og ofan, en þó enginn slæmur.
Næst á eftir hrásalatinu mætti nefna brauðhnúðana, sem bornir voru fram volgir. Að öðru leyti var meðlæti í hinum hefðbundna dansk-íslenzka stíl með óhóflega miklu magni af soðnu dósagrænmeti, meira eða minna stöðluðu.
Einn forrétturinn heitir “Hallgerðar eftirlæti, ofnbakaður sjávarréttur” og hef ég grun um, að það sé smækkuð útgáfa af aðalréttinum “Bergþóru uppáhald, innbakaðir sjávarréttir”. Hann olli nokkrum vonbrigðum.
Þetta reyndist vera sæmilegur hörpuskelfiskur ásamt sveppum og sósu með vægu humarbragði, bakaður í fisklaga brauðformi úr pædeigi. Með honum fylgdu skemmtilega lítið sýrðar gúrkur og fremur seigt, líklega fryst brokkál.
Rjómasoðið spínat
Skötuselurinn var djúpsteiktur í allt of miklu deigi og með of miklu steikarolíubragði. Að öðru leyti var fiskurinn ágætur. Enn skemmtilegra var þó rjómasoðið spínatið, sem ég var þó ekki viss um, að passaði endilega við skötuselinn.
Ofnbökuð smálúða með ágætri Mornay-sósu var góð á bragðið, en þó þurrari en efni standa til. Gífurlega mikið af rækjum og sósan góða réðu úrslitum um, að rétturinn var mjúkur og góður. Dósasveppir, hvítar kartöflur og rósakál fylgdu.
Kryddlegnar lambalærissneiðar voru ekki alveg grásteiktar og héldu því nokkrum safa og voru góðar á bragðið. Þær voru þó þurrari og bragðminni en hliðstæðar, frábærlega bleikar steikur í Holti, Nausti og á Sögu.
Með sneiðunum fylgdu gervilegar franskar kartöflur, soðnar gulræður, áðurnefnt brokkál, laukur og milt kryddsmjör. Í fyrra hefði ég lofað þennan rétt meira, en þá voru ekki orðnar þær framfarir í matreiðslu lambakjöts, sem nú sjást víða.
Úrbeinaðar lambakótilettur á spjóti voru minna eldaðar og þar af leiðandi betri, hæfilega meyrar, en nokkuð feitar. Með þeim fylgdu bökuð kartafla, brokkál, maís, paprika, dósasveppir og frambærileg béarnaise-sósa.
Óvenjulegur kjúklingur
Bezti matur prófunarinnar voru fylltir kjúklingar með rauðvínssósu. Þetta var eini óvenjulegi rétturinn, mjög meyr og ljúfur á bragðið, borinn fram í tveimur rúllum með hakki innan í. Betri kjúkling hef ég ekki fengið.
Með kjúklingaréttinum fylgdi rósakál, soðnar gulrætur og bökuð kartafla, svo og dálítið spennandi hveitisósa úr rauðvínssoði, ákaflega mögnuð sósa, sem þó hefði gjarna mátt vera bragðminni. En ég gæti hugsað mér að fá þennan rétt aftur.
Jarðarberjarísinn var borinn fram með gríðarstórum dósajarðarberjum og þeyttum rjóma. Ís “að hætti Hlíðarenda” var blanda ýmissa ístegunda með feiknarlega miklum þeyttum rjóma. Hvort tveggja var frambærilegt, eins og íss er von og vísa.
Pönnukökur með rjóma voru full ljósar og með votti af hveitibragði. Djúpsteiktur camembert var góður, að öðru leyti en því, að steikarhjúpurinn var mörgum sinnum of þykkur til að vera ætur. Við djúpsteikingu þarf greinilega meira lag.
Ostabakkinn var fallega fram reiddur, en lítilfjörlegur að innihaldi. Þar var camembert með hörðum kjarna, of sterkur port salut, hvort tveggja framleiðendum að kenna. Einnig smurostur, hnetuostur, kokkteilber og ristað brauð.
Meðan ostaframleiðsla er í lægð hér á landi er betra að bjóða upp á gouda, Króksost, óðalsost, rjómaost og kotasælu og kannski tilsitter. Hann hefur þó oft verið lélegur eins og gráðaostur, port salut og camembert.
Dýr veitingastaður
Miðjuverð forrétta á Hlíðarenda var 54 krónur, súpa 22 krónur,.fiskrétta 73 krónur, kjötrétta 124 krónur, sæturétta 20 krónur og osta 26 krónur. Einn réttur með súpu ætti því að meðaltali að kosta 121 krónu, sem er dýrt.
Þriggja rétta máltíð með hálfri flösku af ódýru víni og kaffi ætti að kosta 198 krónur, örlítið minna en hjá dýrustu húsunum, þar sem slík máltíð kostaði um svipað leyti 210 krónur. En Hlíðarendi sleppur þó niður í næstdýrasta flokk.
Fyrir mat fær Hlíðarendi sex í einkunn, níu fyrir vínlistann, átta fyrir þjónustu og átta fyrir umhverfi. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnirnar með tveimur, koma út 71 heildarstig af 100 mögulegum.
Það þýðir, að Hlíðarendi fær sjö í heildareinkunn og er þar með í öðrum gæðaflokki íslenzkra veitingahúsa.
Jónas Kristjánsson
Vikan