Þar sem ég hef létzt um 40 kíló, þori ég að leggja orð í belg umræðunnar um megrun. Fjölmiðlar fyllast af fáránlegum megrunarráðum. Núna síðast er fólk hvatt til að borða sem mest og sem feitast til að megrast. Súkkulaði, smjör og rauðvín eru sögð hollustuefni. Algengust eru ráð um, hvernig megi gabba kaloríubúskap líkamans. Sumar hitaeiningar eru sagðar brenna hraðar en aðrar og sum hegðun er sögð brenna þeim hraðar en önnur. Eins og stærðfræði, sem segði tvisvar tvo vera allt annað en fjóra. Slík megrun er sjónhverfing. Þær eiga það sameiginlegt, að segja fórnardýrum bara það, sem þau vilja heyra.