Halla mér oft að sérfræðingum, þegar mig brestur skilning eða skynjun. Til dæmis í sjónlistum. Þar eru listfræðingar, sem hafa skoðun, og listunnendur, sem kaupa. Samkvæmt mælikvarða þeirra er Santiago Sierra einn af fremstu listamönnum nútímans. Það nægir mér, þótt sumir telji klofna steininn við Alþingishúsið ljótan eða slappan. Mér finnst klofinn steinn vera tákn um klofna þjóð, þar sem annars vegar eru gerendur hrunsins og meðvirka liðið, sem enn er í afneitun. Hins vegar er restin af þjóðinni, sem enn hefur ekki jafnað sig eftir rothögg hrunsins. Steinninn þarf að vera við dyr Alþingis.