Efnahagsbandalag Evrópu ákvað á fimmtudaginn að stuðla að aukinni offramleiðslu landbúnaðarafurða í þáttökuríkjunum. Það ákvað að hækka verð til bænda um 12% og almennt matvælaverð um 3%.
Þetta er örlagaríkasta ákvörðun, sem Efnahagsbandalagið hefur tekið um langt skeið. Með henni stefnir bandalagið eindregnar en nokkru sinni fyrr í þá átt að verða hreint landbúnaðarbandalag.
Landbúnaðurinn gleypir þegar 70% af þeim 17,5 milljörðum nýkróna, sem bandalagið hefur til ráðstöfunar á ári hverju. Með ákvörðun fimmtudagsins mun þessi hlutur aukast enn um sinn.
Ráðamönnum bandalagsins er vel kunnugt um afleiðingar þessarar ákvörðunar á öðrum sviðum. Þeir vita, að þeir verða að leggja á hilluna ráðagerðir um annað samstarf og draga úr því, sem þegar er til.
Í vetur neyddist bandalagið til að skera niður fjárlög sín, þar sem efnahagsástand þáttökuríkjanna hefur aukið tregðu þeirra við að greiða af naumu fé sinu til sameiginlegra þarfa bandalagsins.
Við slíkar aðstæður hefði mátt ætla, að þrýstihópar landbúnaðar í ríkjum Efnahagsbandalags Evrópu yrðu að sætta sig við samdrátt í styrkjum, uppbótum og niðurgreiðslum. En sú hefur ekki orðið raunin.
Í haust deildu talsmenn íslenzks landbúnaðar við Dagblaðið og héldu því fram, að ekki mætti taka mið af núverandi landbúnaðarstefnu bandalagsins. Það mundi innan tíðar stefna að minni offramleiðslu.
Dagblaðið hélt því hins vegar fram, að bandalagið væri fangi landbúnaðarstefnunnar og mundi nauðugt viljugt halda áfram að stuðla að offramleiðslu um alla fyrirsjáanlega framtíð.
Til þess að átta sig á þessu verða menn að skilja, að staða landbúnaðar sem þrýstihóps er svipuð í ríkjum Efnahagsbandalagsins og hún er hér á landi. Hann hefur bæði tögl og hagldir.
Í flestum ríkja bandalagsins kemur landbúnaðarráðherrann fram sem umboðsmaður þrýstihóps en ekki kjósenda almennt, nákvæmlega eins og hér á landi. Hann telur sér skylt að standa vörð um landbúnað.
Þegar allir þessir landbúnaðarráðherrar koma saman í Efnahagsbandalagi Evrópu, ráða þeir ferðinni. Aðrir ráðherrar verða að beygja sig fyrir því, að hinir fyrrnefndu ráði landbúnaðarstefnunni.
Þetta skiptir Íslendinga miklu, því að stefna bandalagsins hefur leitt til gífurlegra birgða af óseljanlegum landbúnaðarafurðum í iðnríkjum Vestur-Evrópu. Og þetta er reynt að selja fyrir slikk.
Bandalaginu gengur illa að selja afurðirnar til annarra heimsálfa. Mikið af þeim eru sömu vörur og Íslendingar framleiða, kjöt eða mjólkurafurðir, sem þriðji heimurinn hefur ekki efni á að kaupa.
Til viðbótar kemur svo samkeppnin við gífurlega hagkvæman landbúnað Bandaríkjanna, þar sem hver starfsmaður í landbúnaði brauðfæðir 60 manns, á meðan starfsbróðirinn í Vestur-Evrópu brauðfæðir 20 og á Íslandi 10.
Dagblaðið hefur margoft bent á, að tilgangslaust sé að reka hér sömu stefnu og Efnahagsbandalagið og kasta offramleiðslu okkar á alþjóðamarkað, sem gefur ekki nokkuð í aðra hönd.
Við ættum miklu fremur að hagnýta okkur hið mikla framboð alþjóðamarkaðarins af óseljanlegum og hræódýrum landbúnaðarafurðum. Við ættum að gefa innflutning þeirra frjálsan.
Með því að draga sem mest úr eigin landbúnaði getum við beint kröftum okkar að arðbærari verkefnum á sviðum, þar sem við erum samkeppnishæfir. Smjörið getum við um ókomin ár fengið fyrir slikk hjá Efnahagsbandalagi Evrópu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið