Brýnt er orðið að reisa nýja flugstöð fyrir millilandaflugið frá Keflavíkurvelli. Gamla brunagildran, sem nú er notuð, er á hernaðarsvæði og sýnir ferðamönnum engan veginn það andlit Íslands, sem við teljum æskilegt.
Stórhugur undirbúningsaðila hefur tafið framgang nýrrar flugstöðvar. Þeir hafa jafnan verið að hanna of stórar og of dýrar stöðvar, þótt þær hafi farið minnkandi og smám saman færzt nær raunveruleika íslenzks millilandaflugs.
Sú tillaga, sem nú hefur verið kynnt, er enn of dýr í framkvæmd, jafnvel þótt undirbúningsaðilar segist vera komnir niður í raunhæft lágmark. Enda sparast lítið á minnkun, sem felur í sér færslu útveggja inn fyrir burðarsúlur.
Tillagan er þó engan veginn ónýt. Sá ótti hefur reynzt ástæðulaus, að hönnunina mundi skorta stílbragð, er hæfi fyrsta húsi, sem ferðamenn sjá, þegar þeir koma til landsins. Tillagan sýnir raunar fallega flugstöð.
Hönnuðir hefðu mátt taka meira tillit til veðurfars á Keflavíkurvelli með því að gera farþegum kleift að fara í og úr áætlunarbílum innanhúss. Að öðru leyti er ekki augljós neinn galli á hönnuninni, nema framkvæmdakostnaðurinn.
Millilandaflugið er komið niður í eina til tvær áætlunarferðir á dag, auk nokkurs leiguflugs. Þar á ofan er skynsömum mönnum ljóst, að Luxemborgarflugið er dauðvona, jafnvel þótt ráðamenn haldi krampataki í fortíðina.
Ekki virðist fráleitt að gera ráð fyrir afgreiðslu tveggja venjulegra, íslenzkra þota á nokkurn veginn sama tíma eða einnar risaþotu, þannig að rúm geti verið fyrir 500-600 farþega í flugstöðinni á einum og sama tíma.
Gerist þau undur, að millilandaflugið magnist um allan helming í framtíðinni, ætti Flugleiðum að reynast auðvelt að dreifa brottfarar- og komutímum á þann hátt, að flugstöðvarrýmið nýtist betur en er í núverandi flugstöð.
Það er hreint og beint óskiljanlegt, að flugstöð fyrir íslenzkt millilandaflug þurfi að kosta tæpar 500 milljónir nýkróna á núverandi verðlagi. Því verður ekki trúað, að þetta sé hin raunhæfa lágmarkstala.
Þetta er nokkurn veginn sama upphæð og mundi fara í að koma innanlandsvöllum í sómasamlegt horf og byggja á Sauðárkróki varaflugvöll fyrir millilandaflugið. Þetta er helmingur af allri fjárfestingarþörf ríkisins í flugmálum!
Að vísu má ekki gleyma, að Bandaríkjastjórn hyggst greiða til smíðinnar fasta upphæð, sem nemur hálfum áætluðum kostnaði, og bera allan kostnað af aðkomuleiðum flugvéla og bíla að flugstöðinni. Þessi hlutdeild skiptir miklu.
Eftir stendur tæplega 150 milljón nýkróna kostnaður ríkisins. Það er of há tala, en væri þolanleg, ef við værum í því tímahraki, að Bandaríkjamönnum væri að snúast hugur. Í slíku tímahraki erum við ekki enn, þótt síðar geti orðið.
Rétt er að gera í alvöru enn eina atrennu að því að minnka flugstöðina niður í raunverulegar þarfir og stefna að því að geta hafið framkvæmdir á næsta ári í góðri samvinnu við stjórnvöld í Bandaríkjunum.
Hafa verður þó jafnframt að leiðarljósi, að smíði flugstöðvarinnar verði ekki á nokkurn hátt til að tefja bráðnauðsynlegar framkvæmdir til aukningar öryggis í innanlandsflugi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið