Eins og við mátti búast hafa hinir nýju og athafnasömu eigendur Asks á Laugavegi 28 tekið til hendinni og lyft veitingahúsinu úr þeirri niðurlægingu, sem það var í, þegar Vikan prófaði húsin síðast fyrir rúmu ári.
Askur er svo sem ekki orðinn nein himnasæla. En hann er í fyrsta lagi orðinn tandurhreinn og snyrtilegur. Í öðru lagi býður hann upp á sómasamlegan mat. Og í þriðja lagi eru gestir ekki lengur látnir borga fleira en þeir hafa keypt.
Hinn mikli askur á miðju gólfi er ekki í stíl við gömlu innréttingarnar, sem hafa haldið sér að nokkru leyti. Það væri synd að segja Ask smekklegan í útliti, þótt gaman sé að gömlu fjölskylduljósmyndunum.
Nú er komin full þjónusta í Aski, til mikilla bóta. Það skyggir þó á stjanið við gesti og stemmninguna, að borð eru ekki dúkuð eins og t.d. á Torfunni, Rán og á Vesturslóð, þremur veitingahúsum í sama verðflokki og Askur.
Heppinn var ég
Hér er boðið upp á eitt rauðvín og annað hvítvín hússins. Sem betur fer heitir hið ágæta Chianti Classico eftir höfundi þessarar greinar, meðan Sigmar verður að sæta hinu lítilfjörlega Liebfraumilch hvítvíni.
Sagt er, að norskir harðlífisseggir hafi krukkað eitthvað í eldhúsið, trúboðar færibanda- og milligrammamatreiðslu þeirrar, sem ættuð er frá bandarískum keðjumatstofum og á vafalaust eftir að ríða hér húsum sem aðrar plágur.
Engum þarf að koma á óvart, þótt undirritaður sé afar lítið hrifinn af hinni gerilsneyddu, sviplausu, menningarsnauðu matreiðslu keðjuhúsa, ekki sízt ef hún er hingað komin fyrir milligöngu mataráhugalausrar þjóðar.
Segja verður Aski til hróss, að hann ber ekki nein sérstök örkuml hins norsk-ameríska trúboðs. Matseðillinn og matreiðslan eru ekki neitt tiltakanlega ópersónuleg, þótt ekki sé þar heldur neitt ævintýralegt að finna.
Rækjur í sósu hvítvíns og tómata voru bornar fram með sítrónubátum, blaðsalati, steinselju, ristuðu brauði og smjöri. Þessi kaldi forréttur er gamalkunnur og traustur, enda brögðuðust rækjurnar ágætlega.
Smálúðuflök, bökuð með osti og sósu úr sveppum, rækjum, papriku og tómati, voru góð. Fiskurinn var að vísu þurrari en ástæða er til. En jukkið, sem fylgdi, var gott og gerði réttinn í heild að lystugum mat.
Indversk karríkjötsúpa var sneisafull af kjúklingakjöti, snarpheit, saðsöm og mjög góð. Þetta er nýstárlegur réttur hér á landi og verður líklega sá, sem helzt dregur mig til endurfunda við þennan stað.
Glóðarsteikt nautalund, með kryddsmjöri, hrásalati, frystu blandgrænmeti, bakaðri kartöflu og ýmsu fleiru, var bragðgóð, en ekki nógu meyr, þótt hrásteikt væri. Hrásalatið var fremur hversdagslegt úr gulrótum og hvítkáli.
Fryst grænmeti gott
Frysta grænmetið, sem fylgdi þessum og mörgum fleiri réttum Asks, er umtalsverð endurbót á dósagrænmetinu, sem tröllríður íslenzkum veitingahúsum. Ekki spillti fyrir, að suðan á því var nett, raunar óvenjulega snögg.
Kínverskar pönnukökur voru ekki merkilegur matur, en nokkuð bættu úr skák hin stinnu og góðu hrísgrjón, sem fylgdu, svo og karrísósan. Hins vegar var pitsa með nautakjöti og sveppum aldeilis ljómandi góð á bragðið.
Grillsteiktur kjúklingur með appelsínusósu, soðnu grænmeti, hrásalati og ýmsu fleiru var í sæmilegasta lagi. Eftirminnilegust var ágæt appelsínusósan, sem var skemmtileg tilbreytni frá hinum stöðluðu sósuhefðum þessa lands.
Lambasneiðar með karrísósu, hrísgrjónum, ananas, soðnu grænmeti, hrásalati og hinu og þessu öðru voru rauðar, meyrar, safaríkar og góðar. Hrísgrjónin voru líka í bragðbetra lagi, en sósan var í hinu fullkomna meðallagi.
Glóðarsteiktar, tvöfaldar lambakótilettur voru bezti matur þessarar prófunar, bornar fram með sítrónusmjöri, bökuðum kartöflum, soðnu grænmeti, hrásalati, sveppum og papriku. Líklega er lambakjötsmatreiðsla vor að blómstra.
Ferskjuís, súkkulaðiís og appelsínuís voru vel úti látnir og góðir á bragðið. Má kannski fremur þakka það Mjólkursamsölunni en Aski. Ís er yfirleitt eini öruggi eftirrétturinn á íslenzkum matseðlum.
Matreiðslumaðurinn varaði við ostabakkanum, þar sem ekki var að þessu sinni til camembert, tilsitter, óðalsostur og maribu kúmen, þótt auglýstir væru á hverju borði. Við þrjóskuðumst við og losum jafnframt ostinn undan einkunn.
Með ostunum, gouda, Króks, gráða, pipar, hnetu og smurosti, fylgdi m.a. klasi vínberja, sem út af fyrir sig er vel til fundið. En þá þarf líka að fela einhverjum í eldhúsi að tína brott þau ber, sem ekki teljast frambærileg.
Nokkuð hátt verð
Réttur dagsins með súpu kostaði 90 krónur. Miðjuverð forrétta var 34 krónur, súpa 14 krónur, fiskrétta 54 krónur, kjötrétta 92 krónur, sæturétta 17 krónur og ostrétta 31 króna, semsagt í þriðja verðflokki af fimm.
Þriggja rétta máltíð með karöflu af víni og kaffi ætti að meðaltali að kosta 155 krónur eða svipað og á Vesturslóð og í Torfunni. Í gæðasamanburði við þau hús finnst mér þetta verð hátt, þótt það kunni að vera í lagi í öðrum samanburði.
Matareinkunn Asks er sex, vínlistaeinkunn fjórir, þjónustueinkunn sjö og umhverfiseinkunn fimm. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnirnar með tveimur, koma út 58 heildarstig af 100 mögulegum.
Vegin heildareinkunn Asks er því sex að þessu sinni.
Jónas Kristjánsson
Vikan