Steingrímur er Lúðvíkstrúar.

Greinar

Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra hefur tekið trú á Lúðvík Jósepsson. Hann heldur því fram, að fiskiskipafloti Íslendinga sé nokkurn veginn hæfilega stór. Og að ráðherra sið hefur hann skipulagt þessa missýn í reglugerð.

Í niðurstöðum endurnýjunarnefndar fiskiskipa segir hins vegar: “Núverandi sóknarmáttur fiskiskipaflotans er of mikill, þótt hámarksafrakstri fiskistofna væri náð. Sóknarmáttur flotans þarf að minnka. Endurnýjunarþörf . . . er lítil sem engin.”

Steingrímur tekur ekkert mark á þessari nefnd sinni. Hann tekur ekkert mark á samtökum útgerðarmanna, sem benda réttilega á, að hinar miklu veiðihömlur sýni ljóslega, að fiskiskipaflotinn sé of stór. Hann tekur mark á Lúðvík einum.

Samkvæmt nýrri reglugerð Steingríms á að reyna að halda sóknarmætti flotans svipuðum og hann er nú og stefna að örari endurnýjun bátaflotans en verið hefur. Sitthvað er gott í reglugerðinni, þótt heildarmynd hennar standist ekki.

Til dæmis er rétt, að bátaflotinn er orðinn of gamall. Yngja þarf hann upp, meðal annars með aðstoð úreldingarsjóðs fiskiskipa, en þó á þann hátt, að hann minnki um leið. Um það fjallar ágætt frumvarp, sem liggur fyrir alþingi.

Þá er einnig rétt að gefa innlendri skipasmíði sum þeirra tækifæra, sem felast í reglugerðinni, einkum kröfuna um samanburð innlendra og erlendra tilboða og kröfuna um, að innlendu tilboði verði tekið, ef verðmunur er lítill.

Hitt er svo vafasamt að láta innlenda skipasmíði hafa algeran forgang að kvóta ársins, ef hún nær samningum við útgerðarmenn. Hætt er við, að þar verði um að ræða tilboð, sem útgerðarmenn geti ekki hafnað, ef þeim er mikið mál að fá skip.

Forgangurinn að kvótanum er raunar skólabókardæmi um tilhneigingu stjórnmálamanna til að setja markaðslögmálin úr skorðum og valda á þann hátt þjóðhagslegu tjóni, sem getur orðið mun alvarlegra en vandinn, sem reglugerðin átti að leysa.

Ofsagt er þó hjá talsmönnum útgerðarmanna, að reglugerðin stefni að algerri tilfærslu ákvörðunarvalds um endurnýjun fiskiskipa úr höndum útgerðar í hendur ráðherra, sem fari eftir meintri þörf fremur en fjárhagslegu bolmagni.

Með reglugerðinni er ekki verið að taka kosti útgerðarmanna, heldur þrengja þá. Verið er að herða skilyrðin, sem þeir verða að uppfylla til að komast yfir ný skip. Slík herðing er nauðsynleg, þegar flotinn er of stór.

Í heild má um hina nýju reglugerð Steingríms segja, að hún stefni að illskárra ástandi en nú ríkir, að hún stefni að stöðvun á afskaplega varhugaverðri stækkun flotans. Hún er skref í rétta átt, en aðeins eitt skref.

Fyrir alþingi liggur mun raunhæfara frumvarp Kjartans Jóhannssonar og fleiri um, að taka verði úr umferð tvö tonn fyrir hvert eitt, sem bætt er við fiskiskipastólinn. Það frumvarp tekst mun betur á við vandann en reglugerð Steingríms.

Frumvarpið miðar að hægfara minnkun flotans niður í hæfilega stærð og samfara yngingu hans til tæknivæddra og sparneytinna skipa. Hvort tveggja verður að fara saman að mati næstum allra, sem vit hafa á þessum málum.

Steingrímur Hermannsson hefur hins vegar tekið trú á þá meinloku Lúðvíks Jósepssonar, að flotinn sé bara alls ekki of stór, alveg eins og það sé allt í lagi, að hver togari verði að sæta 150 skrapdögum á ári.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið