Borgarstjórnarmeirihluti Reykjavíkur ætlar að verða heilt kjörtímabil að koma sér upp nýrri þróunarstefnu byggðar, sem er nokkru lakari en sú, er lá fyrir dyrum, þegar valdaskipti urðu í borginni. Fjögur ár fara í verra en ekki neitt.
Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur stóðu að hinni fyrri stefnu, sem gerði ráð fyrir nýjum borgarhverfum á Korpúlfsstaðasvæðinu. Alþýðubandalagið var á móti og hefur frá kosningum ráðið skipulagsferðinni.
Allt skipulag og öll þróunarstefna verður úrelt strax við fæðingu. Korpúlfsstaðastefnan var gölluð, en hafði þó fengið í arf einn mikilvægasta kost gamla aðalskipulagsins frá 1962, losarabraginn.
Borg þarf að hafa fullt af óráðstöfuðum svæðum til þarfa, sem mönnum eru ekki ljósar, þegar skipulag er framið. Slík svæði eru mörgum áratugum síðar mjög vel þegin.
Hinn nýi meirihluti fékk nokkurt svigrúm til stefnubreytingar, þar sem íbúum fór að fækka í Reykjavík. Fljótt varð ljóst, að ekki yrði nauðsynlegt að undirbúa ný hverfi með eins miklum hraða og áður var talið.
Þetta svigrúm var undir forustu Alþýðubandalagsins notað til að leita að auðu svæðunum í borginni til að taka þau undir mannvirki. Svæðin átti að nota til að vinna tíma, en ekki til neinna brýnna, svæðisbundinna nota.
Meðal annars hefur verið þrengt að útivistarsvæðum og dregið úr nauðsynlegum stækkunarmöguleikum Borgarspítalans. Á sumum öðrum stöðum hefur tekizt að hindra slys eða fresta þeim að minnsta kosti fram yfir næstu kosningar.
Byggðina þarf raunar að þétta. Það ætti að gera í borgarmiðju, en ekki á útivistarsvæðum. Nota ætti endurreisn Laugavegshverfisins eða kannski flugvallarsvæðið til að þétta byggð í Reykjavík, en ekki kák út um allar trissur.
Ofan á eltingarleikinn við auðu svæðin er nú að koma í ljós ný þróunarstefna, sem gerir ráð fyrir nýjum borgarhverfum á Rauðavatnssvæðinu í stað Korpúlfsstaðasvæðisins. Nýja stefnan á að réttlæta töfina, sem orðin er.
Út af fyrir sig mætti vel færa byggðina áfram inn í land í framhaldi Árbæjar og Breiðholts í stað þess að fara með ströndum fram. En í þessu máli hafa ekki fengizt marktæk svör við nokkrum efasemdum.
Í fyrsta lagi virðist sennilegt, að auðveldara verði að semja eftir fastmótuðum leikreglum við ríkið um yfirtöku Keldnalands, heldur en að semja við fjölmarga landeigendur á sumarbústaðasvæðinu á Norðlingaholti.
Í öðru lagi hefur því ekki verið mótmælt, að veðurfarsathuganir sýni jafnvel enn erfiðara veður á Rauðavatnssvæðinu en í Breiðholti efra og þá um leið mun óhagstæðara en á Korpúlfsstaðasvæðinu.
Í þriðja lagi er uppi rökstuddur grunur um, að dýrara muni reynast Reykjavíkurborg að undirbúa byggð á Rauðavatnssvæðinu en Korpúlfsstaðasvæðinu. Taka verður þó fram, að þessi grunur er engan veginn staðfestur.
Í fjórða lagi hafa komið fram mjög svo eðlilegar áhyggjur af að byggja kringum Bullaugu, ganga nærri vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins og byggja á óvenjulega sprungnu svæði, þótt margir sérfræðingar segi þetta vera í lagi.
Að öllu samanlögðu verður ekki séð, að stefnubreytingin sé til bóta, nema síður sé. Kjörtímabilið virðist munu fara í verra en ekki neitt.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið