Friðrik Ólafsson, forseti Alþjóða skáksambandsins, hefur gefið afdráttarlausa yfirlýsingu, sem hlýtur að gleðja unnendur skákar, drengskapar og mannréttinda. Í henni fjallar hann um fyrirhugað heimsmeistaraeinvígi Karpovs og Kortsjnojs.
“Sem forseti Alþjóða skáksambandsins ber ég fulla ábyrgð á þessu heimsmeistaraeinvígi og ég tel það skyldu mína að sjá til þess, að fyllsta jafnræði ríki í öllum atriðum milli keppenda. Að mínu mati eru fjölskyldumál Kortsjnojs fyrirstaða.”
Hér segist Friðrik ekki bera aðeins hálfa ábyrgð, heldur “fulla”. Hann segir ekki, að hálfgert jafnræði skuli ríkja meðal keppenda, heldur “fullt” og það ekki í flestum atriðum, heldur “öllum”.
Friðrik lýsir hér nákvæmlega sömu skoðun og kom fram í leiðara Dagblaðsins fyrir réttri viku: “Það er útilokað, að keppni fari fram við þær aðstæður, að fjölskyldu annars aðilans sé haldið í gíslingu af hálfu ríkisvalds hins aðilans.”
Í leiðaranum sagði ennfremur, að Alþjóða skáksambandið bæri ábyrgð á því ófremdarástandi, er sovézkir ódrengir hafa vaðið uppi með skepnuskap, sem ekki mundi liðinn í neinni íþróttagrein á alþjóðlegum vettvangi.
Dagblaðið hvatti Friðrik til að reyna að lyfta Alþjóða skáksambandinu úr því svaði, sem fyrirrennari hans hafði skilið það í, mest fyrir óhóflega lipurð gagnvart þeim,sem enga hugmynd hafa um drengskap í leik.
Svar Friðriks ber vitni þess, að alger stefnubreyting hefur orðið í forustu Alþjóða skáksambandsins, þegar kominn er til valda forseti, er telur sig bera ábyrgð sem fremsta gæzlumann drengskapar í skák.
Friðrik segist hafa komið óánægju sinni á framfæri í Sovétríkjunum og hún komizt rétta boðleið til sovézkra yfirvalda. Hann segist eiga von á farsælli og friðsamlegri lausn innan tíðar, “svo ekki þurfi að fara í hart”.
Þetta er það, sem við viljum heyra. Of lengi hafa skákáhugamenn með lítt eða ekki brenglaðar hugmyndir um drengskap og mannréttindi hlustað á úrtölumenn, sem hafa varað við klofningi Alþjóða skáksambandsins.
Um þetta sagði Dagblaðið fyrir viku: “Lítils er vert að sitja í alþjóðlegu forsæti yfir íþrótt, sem meira eða minna er rekin upp á býti ódrengja.” Lítið, vestrænt skáksamband er raunar betra en stórt samband undir áhrifum glæpamanna.
Við getum öll verið sammála um, að atferli sovézkra yfirvalda í máli þessu sé handan mannlegra hugmynda um drengskap í leik og samskipti yfir landamæri, dæmi um hugarfar þeirra, sem taka ekki mark á eigin undirskrift Helsinki-samnings.
Við getum flest verið sammála um, að Friðrik sem forseti Alþjóða skáksambandsins megi ekki þola, að sálfræðilegt eða annað ójafnræði ríki milli keppenda í næsta heimsmeistaraeinvígi. Og það segist hann ekki munu gera.
Dagblaðið telur, að rökrétt niðurstaða sé sú, að fjölskyldu Kortsjnojs verði leyft að flytja til hans nú þegar. Að öðrum kosti verði heimsmeistaratitill Karpovs ógiltur og gangi til næsta manns í röðinni.
Karpov vann titilinn á marklausan hátt og er engan veginn að honum kominn. Skilningur á þessu er Friðrik nauðsynlegur, svo að hann geti teflt út á yztu nöf og unnið frækilegasta skáksigur ævinnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið