Snarvitlaust stjórnarfrumvarp.

Greinar

Nýjasta vísitölufölsunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar er afleitt. Að meginefni felur það í sér sjónhverfingar og skrípaleik. Og samþykkt þess mun flytja íslenzkt þjóðfélag lengra inn í gerviheiminn, sem stjórnmálamenn hafa búið því.

Ríkisstjórnin er aldeilis montin af því að segjast ætla að skera ríkisútgjöldin niður um 31 milljón króna. Við skulum láta vera, þótt hún segi ekki, hvaða útgjöld þetta verði. Hitt er verra, að þetta er bara tilfærsla.

Ætlunin er nefnilega að skera niður nokkra liði til þess að geta bætt á einn í staðinn. Og sá liður er niðurgreiðsla landbúnaðarafurða. Það þarf óvenju hortuga stjórnmálamenn til að kalla slíka tilfærslu niðurskurð ríkisútgjalda.

Þessi tilfærsla til niðurgreiðslna landbúnaðarafurða skekkir enn verðhlutföll í landinu, sem voru orðin miklu meira en nógu skökk fyrir. Enn einu sinni á í framhjáhlaupi að búa til gervimarkað fyrir umframbirgðir landbúnaðarafurða.

Tilgangurinn er svo einkum sá að falsa vísitöluna. Ætlunin er að koma næstu hækkun framfærsluvísitölu niður fyrir 8% og verðbólgu ársins niður fyrir 40%. En þetta er bara slagur við tölur, ekki við raunveruleika.

Ríkisstjórnin er næstum því eins ásægð með áform sín um aukna innlánsbindingu í Seðlabankanum, sem Alþýðubandalagið kallaði einu sinni frystingu í Nordals-íshúsi. En tímarnir breytast og mennirnir með.

Með þessari svokölluðu frystingu segist ríkisstjórnin vera að stjórna peningamagni í landinu og vinna gegn verðbólgunni. Þetta er gömul lygi, sem seðlabankastjórar og ríkisstjórnir hafa notað árum saman.

Frystingin er nefnilega engin frysting, heldur bara tilfærsla útlána frá bankakerfinu til Seðlabankans, svo að auðveldara sé að skammta fé til forréttindagreina á kostnað annarra. Peningamagn í umferð minnkar ekki um krónu.

Jafnframt á að friða Öskubusku atvinnulífsins, iðnaðinn, með loforði um aukna hlutdeild hans í herfanginu, sem kemur með þessum hætti inn í Seðlabankann. Og allir vita, að iðnaðurinn þarf jafnrétti í aðgangi að afurðalánum.

Ef málið er skoðað nánar, sést fljótlega, að ekkert samband þarf að vera milli frystingar í Seðlabanka og jafnréttis í lánamálum. Í rauninni er ríkisstjórnin að auka miðstýringu fjármagns í landinu og hafi hún skömm fyrir.

Ríkisstjórnin ber sér líka á brjóst í svonefndri verðstöðvun og tekur í frumvarpinu upp á því að hóta mönnum fógeta og lögbanni. Þetta eru dæmigerð vinnubrögð manna, sem búa í gerviheimi og vilja færa hann yfir á aðra.

Skrípaleikur verðstöðvunar felur meðal annars í sér, að iðnrekendur flytji rekstur sinn til Færeyja, svo að þeir geti flutt vörur sínar inn og komist framhjá verðstöðvun. Annars fái þeir fógetann inn á gafl.

Svo er stjórnarandstaðan svo aum og utangátta, að hún tekur þessum ósköpum með japli, jamli og fumi, í stað þess að tæta vitleysuna sundur lið fyrir lið með því orðavali, sem almenningur skilur.

Allt fellur svo í ljúfa löð og stjórnmálamenn hverfa til langþráðs sumarleyfis. Á meðan heldur verðbólgan áfram að bulla á fullum dampi og dulið atvinnuleysi heldur áfram að magnast í formi landflótta.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið