Stálbræðsla er æskileg.

Greinar

Horfur eru á, að stálbræðsla hefjist hér á landi að tveimur árum liðnum. Aðstandendur Stálfélagsins eru að reyna að safna 30 milljón króna hlutafé til að reisa verksmiðju til framleiðslu steypustyrktarjárns úr brotajárni.

Ef alþingi samþykkir, verður hlutur ríkisins 40% eða 12 milljónir króna. Ein af hinum mörgu nefndum Hjörleifs Guttormssonar iðnaðarráðherra skilaði meðmæltri skýrslu í vetur og leiddi hún til stuðnings ríkisvaldsins.

Nefndin taldi, að verksmiðjan mundi geta skilað viðunandi arði og reynast nokkuð stöðugt fyrirtæki. Gerir hún ráð fyrir, að fjárfastingin skilaði sér á 15 árum og afkastavextir fjárfestingarinnar yrðu 8%.

Í þessum útreikningum er miðað við meðalverð innflutts steypustyrktarjárns síðustu tvö árin. Í þeim innflutningi felast þó vaxandi undirboð af hálfu hins norska Elkem Spigerverket, sem er nær einrátt hér á markaði.

Svo er nú komið, að norskt steypustyrktarjárn til íslenzks heildsala, komið til hafnar í Reykjavík, er mun ódýrara en sams konar járn til norskra heildsala úti í Noregi. Enn aukin undirboð mundu valda íslenzka fyrirtækinu erfiðleikum.

Annaðhvort tekst Norðmönnum að hindra byggingu íslenzkrar stálbræðslu eða þeir gefa eftir verulegan hluta markaðsins á Íslandi. Í báðum tilvikum munu þeir hætta undirboðum sínum, enda brjóta þau í bága við fríverzlunarsamninga.

Forsvarsmenn íslenzku verksmiðjunnar hafa opinberlega fullyrt, að hún þurfi enga vernd af hálfu stjórnvalda, ef hún fál að starfa við hliðstæð kjör og sams konar verksmiðjur erlendis. Þetta er mjög mikilvæg yfirlýsing.

Íslendingar eru þess áreiðanlega ófúsir að ríkisvaldið taki með verndarhendi þátt í atvinnurekstri, því að það leiðir skjótt til lélegrar stjórnar og lélegs rekstrar eins og venja er hjá opinberum fyrirtækjum.

Öðru máli skiptir, ef ríkið leggur fram sitt hlutafé með því hugarfari, að það sé bara að taka þátt í arðbærum rekstri, sem hafi umhverfisbætandi áhrif, auki atvinnu, spari gjaldeyri og flytji þekkingu inn í landið.

Mörg sveitarfélög og stórfyrirtæki eru í vandræðum með að koma brotajárni í verð og losna við mengunina, sem því fylgir. Ekki er óeðlilegt, að þessir aðilar taki þátt í að koma á fót góðum kaupanda að þessu rusli.

Þá eru seljendur rafmagns í vandræðum með misjafna orkunotkun. Þeir hefðu hag af að hjálpa til við að koma á fót viðskiptavini, sem getur notað hlutfallslega mikið rafmagn á sumrin, þegar meira en nóg er til af því.

Stálfélagið beitir óvenjulegum og ánægjulegum aðferðum við söfnun hlutafjár. Innborgað hlutafé er lagt inn á verðtrrggðan reikning. 96% af því verða svo endurgreidd, ef ekki tekst að safna nægu fé til að fara af stað.

Þá er þess gætt í reglum, að við stofnfund séu innborgað fé og ógreidd loforð reiknuð samkvæmt þágildandi lánskjarvísitölu. Í verðbólgu er þetta nauðsynlegt jafnréttissjónarmið, því að hlutaféð á að greiðast á tveimur árum.

Bæði að þessu leyti og öðru hefur hingað til verið svo vel á máli þessu haldið, að ástæða er til að hvetja Íslendinga til að leggja hönd á plóginn. Allir geta gerzt hluthafar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið