Landsvirkjun fór flatt.

Greinar

Svo virðist sem mistök Landsvirkjunar í viðskiptum við innlendan verktaka Búrfellsvirkjunar hafi ráðið meiru um óhagkvæma orkusölu til Ísals heldur en beinir samningar íslenzka ríkisins við svissnesku álmennina.

Hingað til hefur gagnrýnin einkum beinzt að orkusölusamningnum við álverið. Talað hefur verið um, að íslenzku samningamennirnir hafi ekki haft roð við þrautþjálfuðum sendiherrum fjölþjóðafyrirtækis og hreinlega samið af sér.

Einnig hefur verið bent á, að siðferðilega rangt sé að skipa samningamenn orkusölu í stjórn þess fyrirtækis, sem við var samið. Það geti myndað hættu á, að þeir þurfi að þjóna tveimur herrum í samningum um orkuverð.

Birgir Frímannsson verkfræðingur birti í Dagblaðinu á mánudaginn upplýsingar, sem benda til, að íslenzku orkusölumennirnir séu ekki eins sekir og af er látið. Þeir hafi ekki vitað betur en að verðið mundi standa undir orkukostnaði.

Landsvirkjun kippti hins vegar grundvellinum undan hagkvæmninni með því að semja við verktaka, sem réði ekki við Búrfellsvirkjun og hleypti umsömdum kostnaði upp um 50%, með samþykki Landsvirkjunar fyrir hönd greiðenda orkureikninga.

Þrjár samsteypur fyrirtækja lögðu fram lægstu tilboðin, nokkurn veginn alveg jöfn. Ein var belgísk, önnur frönsk og hin þriðja íslenzk-dönsk-sænsk. Það var Fosskraft hf. í eigu Almenna byggingafélagsins, E. Phil . Sön og Sentab.

Stjórn Landsvirkjunar braut reglur um meðferð alþjóðlegra útboða. Hún leyfði Fosskraft að breyta tilboði sínu, en bauð ekki hinum tveimur lægstbjóðandi slíkt hið sama. Þar með varð fyrirtækið hagstæðast á pappírnum.

Eftir að tilboð voru komin fram, var áætlað, að orkuverið við Búrfell mundi kosta 47 milljónir dollara að meðtöldum vöxtum á byggingartíma. Þegar upp var svo staðið, kostaði orkuverið 70 milljónir dollara eða 50% meira.

Þetta stafaði ekki af erlendum kostnaði virkjunarinnar. Tilboð í vélar og tæki stóðust. Það, sem fór úr skorðum, var innlendi byggingarkostnaðurinn, ekki í verðbólgnum krónum reiknaður, heldur í dollurum, hinni stöðugu mynt þess tíma.

Landsvirkjun féllst á að taka mismuninn á sig til að hindra gjaldþrot verktakans. Með því átti að koma í veg fyrir tímatöf og önnur óþægindi. Birgir Frímannsson benti í greininni á nokkur dæmi um aukareikninga, sem afgreiddir voru á færibandi.

Verðhækkun orkuvers úr 47 milljónum dollara í 70 milljónir ræður auðvitað úrslitum um orkuverð, af því að 99% þess eru afborganir og vextir, en aðeins 1% fara í rekstur, það er stjórnun, gæzlu, viðhald og eftirlit.

Orkuverðið til Ísals var byggt á fjármagnskostnaði af 47 milljón dollara orkuveri. Þetta var fastur samningur, sem ekki var hægt að breyta, þegar 70 milljón dollara kostnaðurinn var kominn í ljós, enda allur á íslenzka ábyrgð.

Landsvirkjun gat ekki komið kostnaðinum af mistökum sínum yfir á Ísal, kaupanda helmings orkunnar frá Búrfelli. Til þess að standa undir vöxtum og afborgunum varð hún því að setja allan kúfinn á hinn kaupandann, íslenzkan almenning.

Skýringar á ótrúlega háu orkuverði hér á landi er því ekki fyrst og fremst að leita í forréttindum Ísals, heldur í örlagaríkum mistökum, sem Landsvirkjun gerði við undirbúning, eftirlit og uppgjör Búrfellsvirkjunar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið