Borin hefur verið möl í fjölda moldarvega í óbyggðum. Það hefur gert vegina sæmilega jeppafæra, en of harða fyrir hestahófa. Víða er illfært utan vega, svo að við verðum að láta hófana berja mölina. Þetta þrengir að hestaferðum, þótt það auðveldi umferð vélknúinna farartækja. Einu sinni var Heklubraut fræg reiðleið, en er nú bara orðin að möl. Ekki hefur enn myndazt reiðgata utan vegar, en hún kemur líklega með tímanum. Vonandi verður seint borin möl í dráttarvélaslóðir þingeyskra heiða og annarra afréttarlanda. Það er eins mikill lúxus að ríða í slíkum slóðum eins og það er súrt að ríða mölina.