Rustalegt fiskihús

Veitingar

Naustið á Húsavík er nýtt fiskréttahús; formúla, sem gæti hentað ferðamönnum í fiskihöfnum landsins. Rustalega innréttað í matsal verbúðar. Mötuneytisleg formíka-borð og plastglös, einföld matreiðsla. Býður krækling á 1000 krónur, humarsúpu, sushi, svo og grillaðan fisk á teini á 2200 krónur. Nær samt ekki máli. Soðinn kræklingur í skelinni var borinn fram í sellerí-soði, DANSKUR, frosinn og þurr. Þorskur á teini var hæfilega stutt grillaður, en ofsaltaður og alltof pipraður. Þú getur svo sem beðið um meira hóf. En á Húsavík mundi ég frekar halla mér að Sölku með ljúfari húsakynnum og ljúfari matreiðslu.