Töfrasprotinn verkar enn.

Greinar

Hveitibrauðsdagar ríkisstjórnarinnar virðast engan enda ætla að taka. Kjósendur eru enn með glýju í augum af töfrasprotanum, sem Gunnar Thoroddsen brá á loft við stjórnarmyndun fyrir rúmum fimmtán mánuðum.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Dagblaðsins styðja rúmlega tveir þriðju hlutar kjósenda ríkisstjórnina, en aðeins tæplega einn þriðji er henni andvígur. Þetta er ótrúlega og óeðlilega mikið fylgi, svona löngu eftir stjórnarmyndun.

Í beinum tölum sögðust 52% hinna spurðu styðja ríkisstjórnina, 24% vera henni andvígir, 20% óákveðnir og 4% vildu ekki svara. Af hinum ákveðnu voru 69% fylgjandi ríkisstjórninni og 31% andvígir henni.

Þetta er nokkur samdráttur vinsælda síðan í janúar í vetur, þegar þrír fjórðu hlutar eða 75% hinna spurðu voru ríkisstjórninni hlynntir og 25% mótfallnir. Það mætti hugsanlega túlka sem svo, að hveitibrauðsdögum muni um síðir ljúka.

En þá þarf líka að hafa í huga, að útkoma ríkisstjórnarinnar núna í maí er nokkru betri en hún var í hliðstæðri skoðanakönnun í september í fyrra. Þá studdu 61% stjórnina og 39% voru á móti, en nú styðja hana 69% gegn 31%.

Hætt er við, að það vefjist fyrir öllum að útskýra þennan styrk ríkisstjórnar, sem hefur hrakizt úr einum bráðabirgðaúrræðum til annarra og aldrei haft kjark til að gera annað en aðrar ríkisstjórnir hafa gert á liðnum áratug.

Hluta skýringarinnar má vafalaust finna í landsföðurlegri framgöngu forsætisráðherra, sem veldur því, að margir telja hann af öðru sauðahúsi en karphúsmenn stjórnmálanna, einhvern veginn svífandi yfir vötnum.

Annar hluti skýringarinnar er sennilega, að hin sama framganga forsætisráðherra ber klæði á vopnin í fremur ósamstæðri ríkisstjórn og fær ráðherra til að neita sér um að stinga hnífum hver í annars bak, svo sem áður var siður.

Alls staðar sjáum við pattið, sem ríkisstjórnin hefur teflt sér í. Varnarmálin hafa verið fryst og engin niðurstaða hefur fengizt í virkjunarmálin, svo að nýleg dæmi séu nefnd. Slíkt ætti að grafa undan stjórninni innan frá.

Á móti kemur, að undir áhrifum forsætisráðherra hafa aðrir ráðherrar yfirleitt tamið sér þvílíka kurteisi í umgengni hver við annan, að þeir yppta bara öxlum og segja kjósendum í sjónvarpi, að því miður nái þeir ekki málum sínum fram.

Ástandið er svo elskulegt, að hinn annars mjög svo óvægni og samstarfserfiði formaður þingflokks Alþýðubandalagsins á varla orð til að lýsa aðdáun sinni á nýlegri framgöngu forsætisráðherra í lögfræðilegu deilumáli.

Ef til vill voru kjósendur orðnir svo þreyttir á hávaða og látum innan ríkisstjórna; svo þreyttir á stöðugu karphúsi manna, sem allir starfa svo að segja eins; svo þreyttir á uppgerðar ágreiningi, að þeir kjósa friðinn.

Skýringar sem þessar verða þó samanlagt einkar fátæklegar. Blindur stuðningur kjósenda við hina makalausu ríkisstjórn virðist vera óhagganlegt og óskiljanlegt náttúrufyrirbæri, sem ekki verður skýrt hér, frekar en annars staðar.

Hins munu margir íslenzkir stjórnmálaforingjar óska sér, að þeir næðu tökum á hinni óskýrðu formúlu, sem liggur að baki áhrifamáttar töfrasprotans, er enn heldur verndarhendi yfir ríkisstjórninni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið