Þægilegur staður
Enn sem fyrr er þægilegt að setjast niður í Versölum, litla veitingahúsinu í Kópavogi. Heildarsvipur innréttinganna er raunar betri en áður, síðan gosbrunnurinn hvarf. Þetta er ein snotrasta og rólegasta matstofa höfuðborgarsvæðisins.
Samkeppnin virðist þó hafa háð velgengni Versala. Staðurinn er aðeins opinn frá fimmtudagskvöldum til laugardagskvölds og nýtur ekki nógu góðrar aðsóknar. Það er sárt, því að Versalir eru einn af frumherjum nýrrar veitingamennsku.
Þegar ég skrifaði um veitingahúsin fyrir ári, voru Versalir, Hornið, Laugaás og Stillholt hinir nýju fulltrúar betri tíma. Nú eru nýju staðirnir orðnir miklu fleiri, auk þess sem sum gömlu húsin hafa tekið rækilega við sér.
Líklega háir það Versölum að vera suður í Kópavogi, þótt það geti ekki verið eins erfitt og hjá hinu mjög svo ágæta Stillholti uppi á Akranesi. Ekki bætir heldur úr skák, að Versalir hafa smám saman mjakast upp í hæsta verðflokk.
Ýmis hættumerki voru á kreiki, þegar Vikan gerði úttekt á Versölum að þessu sinni. Vín listans voru meira eða minna ekki á boðstólum og eitthvað vantaði líka af matseðlinum. Þarna getur orðið til vítahringur gagnkvæms áhugaleysis.
Óbreyttur matseðill
Matseðillinn er gersamlega óbreyttur frá því í fyrra og enginn réttur dagsins er kominn til sögunnar. Þetta fyrirkomulag hlýtur að vera niðurdrepandi fyrir matreiðslufólkið og hlýtur fyrr eða síðar að koma niður á gestunum.
Ég fer að verða þreyttur að stagast á, að einkenni hinna beztu veitingahúsa er, að þær hafa engan fastan matseðil, heldur eingöngu breytilegan matseðil dagsins. Á þann hátt verður bæði hráefnið og matargerðarlistin bezt.
Að þessu sinni var sjálfkrafa borið fram ágætt síldarsalat fyrir gesti meðan þeir skoðuðu matseðilinn og ákváðu sig. Þetta er skemmtileg nýjung, sem dregur úr tómarúmi, er stundum myndast milli pöntunar og borðhalds.
Rækjukokkteill úr góðu hráefni var í samræmi við það. Einnig var góður graflaxinn með góðri sinnepssósu, góðum spergli og ristuðu brauði. En þetta eru ekki nýstárlegir réttir, fremur en aðrir forréttir Versala.
Súpa Lúðvíks 14. er sem fyrr einkenni staðarins, sérkennileg en þó góð súpa með spergli og skinku í senn. Sveppasúpan var raunar sama súpan, en með sveppum í stað spergils og skinku. Líklega er spergilsúpa seðilsins sama sérrísúpan.
Flest kjöt gott
Hrásalatið, sem fylgdi öllum aðalréttunum, var fjölbreytt, en samt hversdagslegt, allt of smátt saxað, svona eins og á steikarbúlum, og með allt of mikilli eggjasósu. Annað meðlæti aðalréttanna var gott, bökuð kartafla, rósakál og maís.
Við prófuðum ekki fisk að þessu sinni, enda eru Versalir steikhús, en ekki fiskréttastaður. Það er nánast til málamynda, að fisktegundin “fiskur” er á matseðlinum. Við snerum okkur frekar að kjötréttunum, enda hétu þeir ekki “kjöt”.
Ho Chi Min kjúklingurinn var fremur þurr og ekki góður, en rækjublönduð hrísgrjónin voru góð og sömuleiðis sterk karrísósan. Nautabuffsteik Lúðvíks 14. var hins vegar mjög góð, borin fram með þunnri og góðri áfengissósu.
Kryddlegin lambabuffsteik Lúðvíks 14. var nokkuð góð, en fullmikið söltuð, borin fram með ananas og fyrrgreindu, góðu, þunnu sósunni. Lambabuffsteik farmannsins var meyrari og betri, en í staðinn borin fram með vondri hveitisósu.
MS-ís hússins var frambærilegur, eins og við var að búast. Pönnukökurnar með ís og dósajarðarberjum voru hins vegar allt of þykkar og ljósar.
Komið á verðtoppinn
Miðjuverð forrétta reyndist vera 55 krónur, súpa 20 krónur, sjávarrétta 90 krónur, kjötrétta 118 krónur og sæturétta 25 krónur. Þríréttuð máltíð með hálfri flösku af ódýru víni og kaffi ætti að kosta að meðaltali 213 krónur.
Til samanburðar má geta þess, að hliðstætt máltíðarverð væri 211 krónur í Grilli, 210 í Nausti, 208 í Holti, 198 á Hlíðarenda, 193 á Loftleiðum, 159 á Vesturslóð, 155 í Aski og á Rán, 150 í Torfunni og aðeins 113 í Laugaási.
Matareinkunn Versala var að þessu sinni sjö, vínlistaeinkunnin sjö, þjónustueinkunnin sjö og umhverfiseinkunnin átta. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnir með tveimur, koma út 72 stig af 100 mögulegum.
Heildareinkunn Versala er því sjö, hin sama og í fyrra.
Jónas Kristjánsson
P.S. Eftir að þessi grein var rituð, sé ég mér til skelfingar blaðamynd, sem sýnir, að búið er að setja upp bása í Versölum og spilla þar með stílnum, sem hrósað er í greininni hér að ofan. -JK
Vikan