Sérfræði í fjárkúgun.

Greinar

Læknar og sérfræðingar sjúkrahúsa hafa fundið upp sniðuga aðferð til fjárkúgunar. Hún bætist við þá fyrri hefð þeirra að hafa sjúkt fólk að gíslum með því að gera verkfall undir því yfirskini, að þeir séu hættir störfum.

Sérfræðiþekkingin, sem felst í nýju aðferðinni, gæti orðið arðbær útflutningsvara, því að víða eru mafíur og skæruliðaflokkar, sem jafnan þurfa að leita nýrra leiða til að ná fólki í gíslingu og kúga út fjármuni.

Læknarnir hafa komið sér upp innheimtustofnun, sem setur upp einhliða taxta fyrir störf lækna á sjúkrahúsum. Þessi taxti er sendur sjúkrahúsunum. Ráðamenn þeirra vita því af taxtanum, þegar þeir hugleiða að kalla út lækna.

Fjárkúgurunum er auðvitað sama um pakkið, enda Hippókrates löngu dauður. Ráðamenn sjúkrahúsa búa hins vegar við þá kvöl, að fólk veikist, því versnar og það deyr, ef það fær ekki þá heilbrigðisþjónustu, sem tíðkazt hefur.

Samvizkan þvingar ráðamenn sjúkrahúsa til að kalla út lækna. Jafnframt þykjast þeir munu hafna þeirri fjárkúgun, sem felst í reikningunum, er fylgja í kjölfarið. Þeir eru studdir ráðherra, sem flytur alþjóð sömu, innantómu orðin.

Ef sjúkrahúsin neita að greiða fulla reikningsupphæð, ætlar læknamafían að sækja þau að lögum. Málsóknin mun byggjast á því, að ráðamenn sjúkrahúss hafi vitað um taxta þess læknis, sem út var kallaður.

Þetta er mjög sniðug aðferð, mun virkari en sú að senda bara reikninga út í loftið. Læknarnir hafa töluverða möguleika á að vinna innheimtumál sín fyrir dómi eins og þau eru í pottinn búin að þessu sinni.

Hafandi tapað slíku máli standa ráðamenn sjúkrahúsa áfram andspænis því daglega vandamáli, að fólk veikist, því versnar og það getur dáið. Samvizkan mun áfram bjóða þeim að taka upp símann og hringja í mafíuna.

Þannig er meiningin, að fjárkúgunin takist til langframa. Þetta er kaldranalegt skólabókardæmi um, að samvizkan bíður ósigur, þegar hún tekst á við samvizkuleysið. Sá vægir, sem ber tilfinningar í hjarta sér.

Mikilvægt er, að fólk geri sér grein fyrir, að það eru ekki ráðamenn sjúkrahúsa, sem hafa stefnt heilsu og lífi þeirra í hættu. Þeir, sem leika guð og bera ábyrgð á þeim leik, eru mennirnir, sem tugum saman hætta störfum á skömmum tíma.

Jafnframt er æskilegt, að dómstólar átti sig á siðfræði vandans og hinni raunverulegu ábyrgð að baki, í stað þess að stara í blindni á lagakrókana. Virðing fyrir lögum og rétti mun veikjast, ef siðlaus fjárkúgun nær fram að ganga.

Ástæða er til að vona, að deiluaðilar komist að samkomulagi um einhverja hækkun á tekjum lækna, áður en ástandið versnar til muna. Eftir mun þó lengi sitja óbragðið af vinnubrögðunum, sem þjóðin hefur orðið vitni að.

Ekki hefur verið upplýst, hvernig fundnar eru tölur hins einhliða taxta. Þær eru töluvert gráðugar, en þó ekki hærri en svo, að venjulegt fólk mundi ekki vilja glata ærunni fyrir þær.

Ef aðferðin er eins pottþétt og hún lítur út fyrir að vera, vaknar spurningin um, hvers vegna læknar selja ekki æru sína dýrar en á 70 þúsund nýkrónur á mánuði. Ef menn eru í bransanum, þá eru menn í bransanum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið