Watergate I

Rannsóknir
Watergate I

Carl Bernstein & Bob Woodward
All the President’s Men, 1974

Þessi bók lýsir vel vinnubrögðum, sem notuð voru á Washington Post við fréttaöflun af Watergate. Hún hefur frá upphafi nýst mörgum sem kennslubók í rannsóknablaðamennsku, ef menn átta sig á muninum milli Washington árið 1972 og Reykjavík árið 2006.

17. júní 1972. Alfred E. Lewis, lögreglufréttaritari Washington Post, hringir inn frétt um, að fimm menn hafi verið staðnir að innbroti í höfuðstöðvar demókrata í Watergate. Lewis hefur verið 35 ár í starfi og aldrei skrifað, alltaf hringt.

Lewis starfar á lögreglustöðvum Washington og er kunnugur mörgum lögreglumönnum. Hann hefur fengið að vita, að mennirnir hafi allir verið með hundrað dollara seðla á sér, alla í númeraröð. Hann er með nákvæma skrá yfir innbrotstól þeirra.

Spurning 1: Hefði hann reynt að fá eða fengið að vita um þessi hliðaratriði á íslenskri lögreglustöð?

Þegar ég byrjaði í blaðamennsku um 1960 var fyrsta verkið að fara hringferð til mikilvægra aðila í lögreglunni og kynna mig. Þá var ekkert erfitt að rölta milli manna og drekka kaffi. Núna er aðgengi lakara að lögreglunni og minna um heimsóknir blaðamanna.

Munurinn á Washington 1972 og Reykjavík 2006 felst ekki í lögum og reglum. Þar héngu blaðamenn yfir löggunni og náðu í fréttir frá ónafngreindu lögreglufólki, meira eða minna út á gamlan kunningsskap. Slík á að vera hægt að gera enn í dag, en kostar tíma.

Lewis fékk að vita um sönnunargögnin í máli innbrotsmanna, peningaseðla og minnisbækur. Hér mundi slíkt vera tregara, þar sem lögreglan telur alla vitneskju um slíkt munu skaða rannsókn málsins. Með persónulegum samskiptum má þó fá lekann.

Í Bandaríkjunum ganga blaðamenn út og inn á lögreglustöðvum. Eftir mikið ráp og langa viðkynningu ættu íslenskir blaðamenn að geta náð svipuðum árangri hér á landi. Þetta er bara spurning um aðstæður á ritstjórn og þrautseigju blaðamannsins.

Hér á landi eru til nokkrir blaðamenn, sem eiga afar auðvelt með að tala við fólk, vita hverjir búa yfir vitneskju um hina og þessa málaflokka, eru óhræddir við að tala við þá og fá þá til að leka upplýsingum.

Um morguninn byrjar Bernstein að hringja í alla í Watergate, sem hann gat náð í, skrifstofumenn, dyraverði, hreingerningastúlkur, veitingaþjóna. Woodward fór í yfirheyrslu yfir fimmmenningunum hjá dómara á lögreglustöðinni.

Þið sjáið, hvernig Bernstein vann. Hann sat við símann og hringdi í sífellu. Þessi vinnubrögð koma aftur og aftur fyrir í bókinni og einkenna tilraunir þeirra félaga við að grafa upp fréttir, sem ekki lágu á lausu.

Hann situr við hliðina á tveimur mönnum, fer að tala við þá og kemst að því, að þeir heita Joseph Rafferty og Douglas Caddy og virðast hafa eitthvað með fimmmenningana að gera, þótt þeir neiti því, þegar Woodward spyr margsinnis.

Saksóknari vill ekki að þeim sé sleppt gegn tryggingu. Þeir hafi gefið upp röng nöfn, þeir hafi verið ósamvinnuþýðir, þeir hafi verið með 2300 dollara í seðlum og hafi ferðast mikið erlendis. Þeir hafi verið teknir í leynilegu innbroti.

Innbrotsmennirnir segjast vera andkommúnistar að starfi. Einn þeirra segist hafa unnið hjá ríkinu, James W. McCord. Hann segist hafa unnið hjá CIA, bandarísku leyniþjónustunni.
Þetta var orðin heilmikil saga, sem fór í næsta tölublað.

Bernstein hafði á meðan fundið, hverjir mennirnir voru. Fjórir voru flóttamenn frá Kúbu, búsettir í Miami og höfðu tekið þátt í mótmælum gegn Kastró. Þar voru þeir sagðir vera í sambandi við CIA. Þetta var önnur saga, sem líka fór í blaðið.

Bernstein og Woodward mættu í vinnu daginn eftir, sunnudag 18. júní. Þá hefur Associated Press birt, að opinberar fjármálaskýrslur flokkanna hafi leitt í ljós, að McCord sé skipulagsfulltrúi öryggismála hjá Endurkjörsnefnd Nixons, CRP.

Spurning 2: Hefðu fjármálaskýrslur stjórnmálaflokka með greiðslum til einstakra manna verið aðgengilegar á Íslandi?

Slíkar upplýsingar eru ekki til á Íslandi. Í Bandaríkjunum eru lög um að allar greiðslur til flokka og pólitíkusa og frá þeim séu opinberar. Kröfur hafa verið uppi um slíkt hér á landi, en hafa mætt mikilli andstöðu.

Starfandi er þó nefnd um fjármál stjórnmálaflokka. Ekki er líklegt, að hún færi okkur nær Bandaríkjunum á þessu sviði, heldur að hún komist að raun um, að ríkið þurfi að borga meira til flokkanna. Að öðru leyti verði fjármálin áfram lokuð hér á landi.

Bernstein og Woodward skiptu með sér númerunum í íbúða og skrifstofublokkinni, þar sem fyrirtækið McCord Associates var til húsa. Einn íbúanna mundi eftir stúlku, sem héti Westall eða eitthvað þess háttar og hefði þekkt McCord.

Bernstein og Woodward hringdu í fólk, sem hét svipað og Westall og náðu í fimmta símtali sambandi við Harlan A. Westrell, sem sagðist þekkja McCord. Þeir fengu þá lýsingu á McCord, að hann væri í fullri vinnu fyrir Endurkjörsnefnd Nixons, CRP.

Spurning 3: Hefðu íslenskir blaðamenn hringt í alla skráða síma í Watergate og í blokk McCord? Hefðu þeir leitað í símaskránni að Westall og fundið Westrell?

Ýmis dæmi eru um, að íslenskir blaðamenn hafi unnið svona, hafi hringt í alla síma í ákveðnu húsi og túlkað svip með mannanöfnum á þann veg, að um sama nafnið sé að ræða.

Woodward skrifaði sögu dagsins, annars dags Watergate. Bernstein tók söguna og skrifaði hana upp á nýtt. Woodward fanst sú útgáfa vera betri. Um kvöldið kom Woodward við hjá upplýstu heimili McCord og hringdi, en fékk ekkert svar.

Um nóttina hringdi lögreglunæturfréttaritarinn Eugene Bachinski í Woodward og sagði honum, að tvær minnisbækur, sem löggan fann á tveimur innbrotsmanna hefðu að geyma nafn Howard E. Hunt með heimilisfangi W. House og W.H.

Um nóttina fann Woodward E. Howard Hunt í símaskrá, hringdi, en fékk ekki svar. Um morguninn hringdu þeir í Pentagon og fengu að vita, að McCord ynni þar í Öryggisviðbúnaðardeild, þar sem 15 manns unnu. Woodward byrjaði strax að hringja.

Í fjórða símtali náði hann í Philip Jones, sem nefndi í framhjáhlaupi, að meðal verkefna deildarinnar væri að gera lista yfir róttæklinga og búa til neyðaráætlun um ritskoðun fjölmiðla og pósts á ófriðartíma.

Síðdegis hringdi Woodward í númer minnisbókarinnar, fékk Hvíta húsið og spurði eftir Hunt. Símastúlkan leitaði, fann ekki, kom aftur í símann og sagði hann geta verið inni á skrifstofu Colson. Colson svaraði og sagði Hunt ekki vera þar NÚNA.

Aftur hringdi Woodward í Hvíta húsið, fékk starfsmannahaldið og spurði um Howard Hunt. Viðmælandinn fór og gáði og sagði svo, að Hunt væri ráðgjafi hjá Colson.

Spurning 4: Hefði hann fengið hliðstæðar upplýsingar hjá íslensku ráðuneyti?

Ég hef fengið að fara inn á bókasafn ráðuneytis og skoða þar skýrslur. Sömuleiðis hef ég fengið að fara í bókasafn Alþingis og skoðað þar skýrslur, þar á meðal ljósrit af fréttum og uppskriftir af ljósvakafréttum. Ísland er ekki alveg lokað land.

Woodward hringdi svo í skrifstofu Hunt í blokkinni og fékk hann í símann. Þegar Hunt fékk að vita, hvað var á seyði, sagði hann: Guð minn góður. Síðan sagði hann: No comment. Og skellti á.

Woodward hringdi í forstjóra skrifstofunnar, sem sagði honum, að það væri ekkert leyndarmál, að Hunt ynni fyrir CIA. Woodward hringdi í CIA og fékk að vita, að Hunt hefði unnið þar 1949-1970. Á báðum stöðum fékk hann greið svör.

Bernstein talaði við háttsettan stjórnanda í flokki repúblikana. Sá sagði honum, að CRP kæmi flokknum ekkert við, heldur snerist bara um að tryggja Nixon endurkjör. Hann talaði af mikilli fyrirlitningu um mennina umhverfis Nixon.

Mitchell sagði næst af sér sem framkvæmdastjóri CRP. Harry Rosenfeld, einn ritstjóra Washington Post, sagði, að maður af hans tagi segði ekki af sér starfi vegna veikinda eiginkonu. Þar á blaði töldu menn, að Mitchell væri blóraböggull.

Bernstein hringdi í Hvíta húsið, bað um bókavörðinn og spurði, hvort Hunt hefði tekið að láni bækur um Kennedy öldungadeildarmann. Bókavörðurinn játaði og sagði Hunt hafa tekið heilmikið af bókum. Hunt var þannig staðfestur í Hvíta húsinu.

Spurning 5: Hefði hann fengið hliðstæðar upplýsingar hjá íslensku ráðuneyti?
Örugglega ekki, enda er ekki skráð hér aðkoma fólks að bókasöfnum í ráðuneytum eða í alþingi.

Woodward og Bernstein fóru saman á bókasafn þingsins og spurðu um útlán bóka til Hvíta hússins. Þeim var sagt, að þau væru leyndarmál. Þeir fundu þá annan bókavörð, sem leyfði þeim að skoða gögn um útlán allt frá árinu 1971.

Þetta er dæmi um, að annar leyfir það, sem hinn bannar. Ef viðkomandi aðila líst ekki illa á þig, hleypir hann þér að, annars segir hann pass. Það er persónubundið, hvort kerfi veita þjónustu, jafnt í Bandaríkjunum sem á Íslandi.

Lítið kom út úr þessum athugunum annað en, að Hunt hefði haft það hlutverk í Hvíta húsinu að safna heimildum, sem gætu grafið undan Kennedy öldungadeildarmanni. Blaðið birti minni háttar frétt um hlutverk Hunt í Hvíta húsinu.

Sjá nánar:
Carl Bernstein & Bob Woodward
All the President’s Men, 1974

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé