Við eyðum þegar allt of mikilli orku í að framleiða smjör og aðrar landbúnaðarafurðir, sem offramleiddar eru austan hafs og vestan, þótt við förum ekki líka í iðnaði að keppa við offramleiddar vörur nágrannaþjóðanna.
Þeim þjóðum vegnar bezt, er sérhæfa sig sem mest í nýjum atvinnugreinum, þar sem ríkir vanframleiðsla. Fyrir vörur slíkra greina fæst yfirleitt hátt verð, því að seljendur eru áhrifameiri á markaði en kaupendur.
Í gömlum og hefðbundnum greinum, þar sem er offramleiðsla, eru kaupendur hins vegar áhrifameiri en seljendur. Þar reyna menn að vernda heimamarkaðinn og stunda undirboð á alþjóðamarkaði, samanber íslenzkan landbúnað.
Skynsamleg framtíðarstefna er að ýta undir nýjar greinar á kostnað hinna hefðbundnu, notfæra sér sem kaupendur undirboð annarra og vera seljendur í vörutegundum, sem skortur er á. Þessi stefna hefur marga kosti.
Í fyrsta lagi víkja styrktar, niðurgreiddar og uppbættar greinar fyrir öðrum, sem geta staðið á eigin fótum og fært björg í bú. Í öðru lagi minnkar verðbólgan, því að neytendur fá að njóta undirboða á alþjóðamarkaði.
Þessar hugleiðingar skipta miklu í mati á tillögum iðnaðarráðuneytisins um þáttöku hins opinbera í rekstri saltverksmiðju, stálverksmiðju og steinullarverksmiðju. Eðlilega er spurt, hvort við séum þar að bera í bakkafullan lækinn.
Bent hefur verið á, að framleiðslukostnaður fisksalts verði margfalt hærri hér á landi en í suðlægum sólarlöndum, svo að eingöngu sé verið að tefla upp á mismun í flutningskostnaði, sem dugi varla austur fyrir fjall.
Þá er einnig teflt upp á aukaafurðir, sem sumar hverjar eru svo offramleiddar í öðrum löndum, að þeim er beinlínis fleygt. Og loks er ekkert vitað um, hvort saltfiskmarkaðurinn vill fisk, sem saltaður er með nýrri tegund salts.
Ástæða er til að óttast, að fljótlega byrji hinn íslenzki, hálfopinberi saltframleiðandi að væla um innlendan iðnað, þjóðernisstefnu og nauðsyn niðurgreiðslna á flutningi salts um landið, eins og við þekkjum úr öðrum greinum.
Bent hefur verið á, að vandamál steinullarverksmiðju yrðu sumpart hliðstæð. Erlendir steinullarframleiðendur eiga erfitt með að losna við framleiðsluna og sumar verksmiðjur eru reknar með hálfum afköstum.
Þar sem flutningskostnaður er hár á steinull sem salti, mundi hin innlenda framleiðsla njóta fjarlægðarverndar, sem nýttist að vissu marki á innlendum markaði, gæti sem sagt keppt við niðurgreiddan og undirboðinn innflutning.
Fjarlægðarverndin snerist hins vegar við, ef menn teldu þurfa að selja eitthvað af saltinu og steinullinni úr landi. Þá væru þessar greinar komnar á leiðarenda landbúnaðareymdar, verulegur baggi á þjóðinni.
Í þessu efni á leiðarljós okkar að vera hinn frjálsi markaður, einnig þegar hann kemur fram í erlendum undirboðum ríkisstyrktra fyrirtækja. Þessi undirboð sýna nefnilega, í hvaða greinum offramleiðsla er á ferðum.
Ástæða er til að óttast, að innlend framleiðsla salts og steinullar muni leiða til innflutningshafta og tollverndar og um leið til hækkaðs vöruverðs og aukinnar verðbólgu. Í umræðum um málin hefur þessum ótta ekki verið eytt.
Jónas Kristjánsson.
Dagblaðið