Óréttlátt og ótímabært.

Greinar

Ríkisstjórnin hefur nú með aðstoð Seðlabankans gert nýja tilraun til að falsa vísitöluna. Hún notar ótímabæra og sumpart ímyndaða lækkun vaxta til að vega upp á móti gengislækkun krónunnar. Um leið eykur hún fjárhagslegt misrétti í þjóðfélaginu.

Aðgerðir mánaðamótanna eru enn eitt dæmið um, að íslenzkar ríkisstjórnir berjast ekki við verðbólguna, heldur vísitöluna. Þær eru eins og læknir, sem sinnir ekki hita sjúklings í önnum við að færa til kvarða hitamælisins.

Seðlabankinn segir, að vextir hafi lækkað um 1,5% að meðaltali. Er þá ekki tekið tillit til, að lánastofnanir eru í vaxandi mæli að nota heimild til verðtryggðra útlána. Þau taka við af þeim lánum, sem vextir voru lækkaðir á.

Vegna tilfærslu milli tegunda útlána munu vextir alls ekki lækka um 1,5%. Þeir munu meira að segja hækka á verðtryggðu lánunum eftir því sem hraði verðbólgunnar eykst, þegar líður á árið, eftir nokkurn hægagang í upphafi þess.

Verðtryggingin hefur aðallega komizt á í þeim lánum, sem almenningur hefur aðgang að, í fasteignalánum og þriggja ára lánum bankanna. Almenningur mun því ekki njóta áhrifa vaxtalækkunarinnar á hina margfölsuðu vísitölu.

Í þessu gildir reglan um Jón og séra Jón. Það eru nefnilega breiðu bökin í þjóðfélaginu, sem einkum hafa aðgang að lánum með lækkaða vexti. Það eru fyrirtækin, sem að vísu eru góðra gjalda verð, en ættu að greiða sömu vexti og Jón.

Verst er þó, að ekki var hreyft við allt of lágum vöxtum ljúflinga kerfisins, forréttindahópanna, sem njóta afurðalána og lána Byggðasjóðs, er fara með vexti niður í 22% á tíu ára lánum. Gjafir eru áfram gefnar í fjármálaheiminum.

Ofan á þennan lúxus er svo að koma í ljós, að gælusveinar Byggðasjóðs þurfa ekki einu sinni að endurgreiða lánin, ef þeir hafa sólundað þeim. Það virðist nefnilega vera hlutskipti þessa sjóðs að lána til óarðbærra verkefna.

Fjárhagslegt réttlæti kemst ekki á í þessu landi fyrr en allir eru jafnir gagnvart vöxtum og lán verða endurgreidd í sama verðgildi og þau voru tekin. Þetta eru einföld sannindi, sem allir geta skilið, ef þeir nenna.

Vaxtakrukk ríkisstjórnar og Seðlabanka stefnir því miður í öfuga átt. Það rýrir verðgildi vaxta og endurgreiðslna sumra lána. Um leið eykur það þrýsting á lánamarkaði og eykur þá verðbólguna um leið, hvað sem fölsuð vísitalan segir.

Seðlabankinn ver vaxtalækkunina með því að segja verðbólguna komna niður í 40%. Þessu er þó þveröfugt farið. Verðbólgan hefur undanfarna mánuði verið innan við 40%, en er einmitt núna að fara upp fyrir 40% og sennilega upp í 50%.

Það var því einmitt núna, að vaxtalækkun var ekki tímabær. Hún kemur eins og fjandinn úr sauðarleggnum, einmitt þegar verðbólgan er að ná sér á strik. Og hún sýnir hættulegan bilbug á verðtryggingarbrautinni.

Full verðtrygging átti að vera komin á um síðustu áramót, en þá fékk ríkisstjórnin leyfi alþingis til að fresta henni um eitt ár. Nú eru aðeins sjö mánuðir til stefnu og enn er langt til lands fullrar verðtryggingar.

Vaxtauppákoman vekur því miður grun um, að ríkisstjórnin hafi ekki vald á markmiðum sínum, heldur hrekist hún frá einum mánaðamótum til annarra, veifandi þeim sjónhverfingum, sem hendi eru næstar hverju sinni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið