Ódýra ferðamannalandið.

Greinar

Ísland er ódýrasti gestgjafi í heimi samkvæmt tölum tímaritsins Business Traveller um kostnað á gistingu og mat kaupsýslumanna. Að borða og sofa hér á landi kostar ekki nema 42% af því, sem það kostar í Bretlandi.

Samkvæmt þessum tölum er hliðstæður kostnaður 72% í Danmörku, 88% í Noregi og 93% í Bandaríkjunum. Í sólarlöndunum er hann heldur nær íslenzkum kostnaði, 50% í Portúgal og 72% á Spáni, allt miðað við Bretlandskostnað.

Ástæða er til að ætla, að Íslandsfarar þeir, sem miðað er við, hafi náð sérstökum kjörum, því að tölur Íslands eru ótrúlega lágar. Eru þær þó reiknaðar á óeðlilega háu skráðu gengi krónunnar. Rétt gengi gæfi enn meiri mun.

Vitað var, að gisting væri tiltölulega ódýr hér á landi. Hitt kemur á óvart, að matarverð skuli ekki vega upp á móti lágu verði á gistingu. Tölur tímaritsins benda til, að matur sé ekki eins dýr hér á landi og menn vilja stundum vera láta.

Niðurgreiðslur landbúnaðarafurða hafa nokkur áhrif. Með þeim eru skattgreiðendur látnir borga hluta af matarkostnaði erlendra ferðamanna eins og annarra neytenda í landinu. Þær eru dæmi um, hvað millifærslur geta verið hættulegar.

Annar þáttur hins tiltölulega lága matarverðs er ódýr sjávarafli hér á landi. Hinn þriðji er sennilega sá, að álagning í veitingarekstri sé lág í samanburði við útlönd, svo sem almennt er í rekstri hér á landi.

Samband veitinga- og gistihúsa hefur með aðstoð Klúbbs matreiðslumeistara búið til sérstaka tveggja rétta sumarmatseðla á 52 og 61 krónu. Þessir seðlar ættu mjög að treysta þá skoðun, að ekki sé of dýrt að ferðast til Íslands.

Flest bendir til, að í sumar muni ferðamenn streyma hingað meira en nokkru sinni áður, eftir nokkra lægð í fyrra. Þetta er okkur ágæt búbót og væri enn betri, ef við þyrftum ekki að greiða niður matinn þeirra.

Ísland verður aldrei neitt dæmigert ferðamannaland. Hin stutta sumarvertíð er of svöl. Aðstaðan mun aldrei standast samjöfnuð við sólarstrendur. En landið er ólíkt öðrum löndum og hefur nokkurt aðdráttarafl á sérvitringa.

Það borgar sig ekki heldur að leggja of mikla áherzlu á móttöku ferðamanna. Hún felur í sér of miklar sveiflur, svo sem þjóðir Miðjarðarhafs hafa fengið að kenna á. Og ferðamannaþjónusta er líka dæmigerð láglaunagrein, því miður.

Í stórum dráttum hefur ferðamannaþjónusta okkar þróazt á skynsamlegan hátt. Fjárfestingu hefur verið haldið í lágmarki með því að nota skóla sem hótel á sumrum. Um leið hefur verið útveguð sumarvinna fyrir fjölda skólafólks.

Hótelhaldarar, sem berjast við rekstur árið um kring, kvarta yfir, að sumarhótelin taki kúfinn af viðskiptunum. En satt að segja er ekki auðvelt að sjá skynsamlegri leið í landi, þar sem vor og haust ná næstum saman.

Að vísu hafa málsaðilar yfirleitt ekki áttað sig á nútímakröfum um einkabað með hverju hótelherbergi. Fyrir bragðið hafa fæst hinna nýju skólahótela aðstöðu til að fá það verð fyrir gistingu, sem æskilegt hefði verið.

Svo getum við auðvitað sjálf fært okkur í nyt þær erlendu upplýsingar, að gisting og matur séu hér í ódýrasta lagi. Innlendir ferðamenn hafa hingað til of lítið notfært sér hina innlendu ferðamannaþjónustu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið