Hinn gamli hryðjuverkamaður, Menachem Begin, forsætisráðherra Ísraels, hefur farið hamförum í baráttunni fyrir þingkosningarnar 30. júní. Hann hefur beitt hinum fautalegustu brögðum og því miður náð hylli lýðsins að nýju.
Fyrir þremur mánuðum virtist svo sem hin hægri sinnaða Likud-samsteypustjórn Begins mundi kolfalla í kosningunum. En nú hafa skipazt svo veður í lofti, að talið er líklegt, að forsætisráðherrann muni halda velli.
Fyrst tók Begin upp á því að níða erlenda þjóðarleiðtoga, einkum Helmut Schmidt, kanslara Vestur-Þýzkalands. Ofsafengnar og með öllu tilhæfulausar skammir hans virtust falla í frjóan jarðveg Þjóðverjahaturs í Ísrael.
Síðan lét hann flugher Ísraels skjóta niður herþyrlur Sýrlendinga í Líbanon. Þetta var árás á annað land og gerði að engu tilraunir Bandaríkjanna til að koma á friði í borgarastyrjöldinni í Líbanon. Einnig þá fagnaði Ísrael.
Síðasta og mesta óhappaverk Begins var að láta flugherinn ráðast á kjarnorkuverin, sem Ítalir og Frakkar hafa hjálpað Írökum að reisa. Færustu sérfræðingar úr hlutlausri átt telja þessi ver eingöngu hafa verið nýtanleg á friðsamlegan hátt.
Ísraelsmenn fögnuðu ákaft á götum úti, þegar þeir fréttu af þessu nýjasta óþverrabragði Begins. Þeir virðast orðnir svo helteknir af Massada-hugsun hins umkringda, að þeir telji sig yfir almenn siðalög og þjóðarétt hafna.
Margir góðir menn á borð við Anwar Sadat Egyptalandsforseta og Jimmy Carter Bandaríkjaforseta höfðu lagt mjög hart að sér við að draga úr spennu á landamærum Ísraels. Allt þetta starf hefur Begin sprengt í loft upp.
Með árásinni á Írak einangraði Begin Ísrael í heiminum. Til að bjarga stjórn sinni frá falli eyðilagði hann hið viðkvæma jafnvægi heimshlutans. Hann kann að sigra í kosningunum, en sá sigur felur í sér ósigur Ísraels.
Ótraustleg vinnubrögð.
Fyrirsögnin “Stálbræðsla er æskileg” var á leiðara Dagblaðsins 4. maí, þar sem mælt var með þáttöku manna í stofnun hlutafélags um framleiðslu steypustyrktarjárns. Fyrirsögnin fól í sér heildarniðurstöðu leiðarans.
Stuðningur blaðsins var með þeim sjálfsagða fyrirvara, að verksmiðjan skyldi ekki njóta neinnar opinberrar verndar. Blaðið telur til ills, að hið opinbera styðji starfsemi, ef hún leiðir til hærra vöruverðs eða aukinna skatta.
Eitthvað hefur fyrirvarinn farið fyrir brjóst aðstandenda verksmiðjunnar. Einn þeirra, Elías Gunnarsson verkfræðingur, hefur kvartað á prenti, kryddað óviðkomandi dónaskap, sem segir töluverða sögu um höfundinn.
Í fumi greinarinnar ruglar hann saman áliti Dagblaðsins á salt- og steinullarverksmiðjum, sem birtist 1. júní og áliti þess á stálbræðslunni frá 4. maí. Efasemdir blaðsins voru miklum mun þyngri í garð fyrrnefndu verksmiðjanna.
Hinu er ekki að leyna, að nýjar efasemdir hljóta að vakna í garð stálbræðslumanna, þegar þar koma í ljós strákar, sem verða sér til skammar á opinberum vettvangi út af eigin misskilning. Slíkt fælir bara hluthafa á brott.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið