Stillholt

Veitingar

Hvar er saltfiskurinn?

Stillholt á Akranesi var jafn glansandi fínt og fyrst, þegar ég heimsótti það síðast. Meira að segja hnífapörin glóðu. Þetta var og er staður smekkvísi í húsbúnaði, borðbúnaði og matbúnaði.

Mér hefur ekki enn tekizt að koma Agli Egilssyni að óvörum, þótt ég geri aldrei boð á undan mér. Alltaf hefur hann staðið sjálfur í eldhúsi og með þeim árangri, að matur er yfirleitt góður í Stillholti.

Heldur hefur hann þó slakað á klónni síðustu mánuði og lagað sig að smekkleysi hinna mörgu gesta, sem illa eru aldir upp við steikarbúlur og börgera. Ég sé ekki lengur plokkfisk, gellur, saltkjöt og saltfisk á matseðlinum.

Einnig þykir mér ills viti, að fiskréttum fastaseðilsins hefur fækkað úr sjö í fjóra og að matseðill dagsins býður bara upp á einn fiskrétt fyrir utan síld, í stað nokkurra áður. Vilja íbúar fiskibæja kannski ekki borða fisk?

Sem betur fer er kokkteilsósan minna notuð en áður og blandaða dósagrænmetið hefur vikið fyrir frystu. Að öðru leyti er meðlæti áfram staðlað og ekki merkilegt, svo sem franskar kartöflur, rauð dósapaprika og ósköp venjulegt, smásaxað hrásalat.

Óvenjulegur rúsínuís

Ég má til með að nefna aftur, sem ég hef áður lofað Stillholt fyrir. Það er humarskeljasósan, hin bezta, sem ég hef fengið í veitingahúsi hér á landi. Hún er borin fram með grilluðum humri og ég hef einnig séð hana með fiskréttum.

Í fyrra fékk ég í Stillholti frábæran humar og bezta og meyrasta hörpuskelfisk ævinnar, hvort tveggja í hinni eftirminnilegu sósu. En því miður eru nú hinar fornu og úreltu hveitisósur farnar að sjást hér í þessu fyrra virki nútíma matargerðar.

Egill hefur gott lag á kjúklingum. Í tvö síðustu skiptin var fuglinn hæfilega lítið grillaður, en ekki alveg laflaus frá beinunum, eins og flestir íslenzkir matreiðslumenn virðast halda, að hann eigi að vera. Enda var hann bragðgóður og bragðmikill.

Kálfakjötið hefur hins vegar reynzt ofeldað og bragðlítið, bæði hið grillaða og pönnusteikta. Grísakjötið hefur verið betra, einkum reykta grísakótilettan, sem ég fékk síðast. En þá hafði því miður þunna, góða, hveitilausa sósan vikið fyrir hveitiþungri madeirasósu.

Súpur og ísar hafa reynzt vel í Stillholti. Barnaís matseðilsins reyndist vera blanda vanilluíss og skemmtilegs bláberjaíss. Og hinn rommbleytti rúsínuís var í senn óvenjulegur og frábær.

Vínveitingaleyfið hefur lyft staðnum og gert fólki kleift að verja þar notalegri kvöldstund við hina órjúfanlegu blöndu borðvíns og veizlumatar. En valið var ósköp lélegt. Drykkjarhæf eru eingöngu rauðvínin tvö.

Þótt ég hafi hér sagt kost og löst á Stillholti, er ég þeirrar skoðunar, að þetta sé með beztu veitingahúsum landsins. Ég hef gagnrýnt, af því að ég tel það auðveldlega geta bæði batnað og versnað.

Gott og tiltölulega ódýrt

Meðalverð tveggja rétta máltíðar af matseðli dagsins var síðast 45 krónur í Stillholti, sem er einkar hagstætt. Að því leyti er staðurinn í lægsta verðflokki með Laugaási.

Meðalverð forrétta á fastaseðli var 43 krónur, súpa 16 krónur, fiskrétta 44 krónur, kjötrétta 77 krónur, sæturétta 19 krónur og osts 35 krónur. Þriggja rétta máltíð af fastaseðli með víni og kaffi ætti að kosta 166 krónur að meðaltali í Stillholti. Að því leyti er staðurinn í milliflokki með Torfunni, Vesturslóð og Horninu.

Í síðustu heimsókn voru einkunnir Stillholts þessar: Matur 7, vínlisti 4, þjónusta 7, umhverfi 8. Ef matareinkunn er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnir með tveimur, koma út 69 stig af 100 mögulegum. Eða einkunnin sjö.

Jónas Kristjánsson

Vikan