Flest er það ánægjulegt, sem kemur í ljós, er staða afmælisbarnsins er metin á 37 ára afmæli íslenzka lýðveldisins. Þessi unga stofnun hefur sannað gildi sitt og fetar hægt, en örugglega inn í óvissa framtíð margra möguleika.
Við tökum af krafti þátt í tækni og verkfræði, listum og bókmenntum. Það er með ólíkindum, hversu víða sköpunargáfa og -gleði fá útrás hjá aðeins um 220 þúsund manna þjóð. Þetta réttlætir bezt tilveru lýðveldisins.
Sama orkan og athafnasemin kemur fram í daglegu lífi þjóðarinnar. Menn vinna langan vinnudag við gnægð verkefna, meðan 10% íbúa nágrannalandanna ganga um með hendur í vösum, af því að störf eru ekki til handa öllum.
Um leið hefur lýðveldinu tekizt að koma hér á meiri jöfnuði en annars staðar er raunin á. Bilið milli hins hæsta og lægsta er styttra en spurnir fara af í nágrannalöndunum. Þetta hefur verið og er aðalsmerki Íslendinga.
Þennan árangur þurfum við að varðveita. Við verðum með öllum ráðum að hindra, að atvinnuleysi rækti hér stétt utangarðsmanna og þiggjenda. Um leið verðum við að hafna hagfræðikenningum, sem byggja á atvinnuleysi.
Árangurinn þurfum við líka að auka. Ein stétt hefur týnzt í jafnréttinu. Það er roskið fólk, öryrkjar, einstæðar mæður og aðrir, sem ekki geta tekið þátt í hinni almennu velmegun, af því að enginn stiginn er þeim fær.
Til þess að taka þátt í jafnrétti velmegunarinnar þurfa menn einhvern stiga, aðstöðu til dæmis eða ábyrgð, menntun, aflahlut, ákvæðisvinnu, yfirvinnu eða annað, sem lyftir þeim upp úr láglaunatöxtum vinnumarkaðarins.
Við þurfum að lyfta hinni týndu stétt upp í jafnrétti og velmegun meirihlutans. Til þess eru ýmsar leiðir, til dæmis öfugur tekjuskattur. Þetta er dýrt verkefni, sem krefst traustrar undirstöðu í atvinnulífinu.
Þar hefur okkur ekki gengið eins vel og efni standa til. Bjartasta hliðin felst í þeim tökum, sem náðst hafa á verndun fiskistofna og eiga að tryggja góð aflabrögð um ókomin ár. Á öðrum sviðum hefur okkur gengið miður.
Enn erum við með á herðunum óeðlilega þrútinn landbúnað í hinum hefðbundnu greinum kindakjöts og mjólkurvöru. Þetta kostar okkur meira en herinn í öðrum löndum og hindrar fólk og fé í að streyma til arðbærra athafna.
Enn höldum við iðnaðinum niðri og einbeitum okkur þar um of að láglaunagreinum eins og prjónaskap. Á meðan eyðum við tímanum í óæskileg bræðravíg með og móti orkufrekum iðnaði með þátttöku erlends áhættufjármagns.
Við gætum lagað vandamál atvinnulífsins með auknu viðskiptafrelsi, gjaldeyrisfrelsi og vaxtafrelsi, er komi í stað miðstýringar, sem lýsir sér í margvíslegri forgangsflokkun og risaeðlum á borð við Framkvæmdastofnun ríkisins.
Þingmenn eiga að setja lög og ráðherrar að framkvæma þau. Þessir aðilar eiga ekki að reyna að ráða öllu öðru líka. Þeir eiga að dreifa valdinu. Þeir eiga ekki að stjórna fjölmiðlum, bönkum, sjóðum og opinberum fyrirtækjum.
Verkefnin eru nóg í baráttunni fyrir viðgangi og eflingu íslenzka lýðveldisins. Margt hefur tekizt vel á liðnum árum. Það er því ekki óhæfileg bjartsýni, að okkur muni áfram takast margt vel á komandi árum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið