Sovétkerfið hafnar bænarskrám um frelsun fjölskyldu Kortsjnojs skákmanns sem óeðlilegum afskiptum af sovézkum innanríkismálum, en telur eigin hótanabréf til Pólverja ekki vera óeðlileg afskipti af pólskum innanríkismálum.
Svart er hvítt og hvítt er svart í forlagatrú sovétskipulagsins, martraðar nútímans, hinnar einu ógnarstjórnar, sem er verulega hættuleg öðrum en eigin þrælum, hættuleg okkur öllum, líka hinum nytsömu sakleysingjum.
Margar ógnarstjórnir eru grimmari en sovétstjórnin. En þær skortir tvennt, sem sovétkerfið hefur, hugmyndafræðina og heimsvaldastefnuna, hina samtvinnuðu forlagatrú á, að heimsyfirráð séu sagnfræðilega óhjákvæmileg.
Þessa undnu og óhugnanlegu forlagatrú má jafnvel lesa úr smáatriðum eins og rétttrúaðri doktorsritgerð Íslendings við íþróttaháskólann í Leipzig í Austur-Þýzkalandi. Kalt vatn rennur milli skinns og hörunds við lestur hennar.
Tilgangslaust er að bera Sovétríkin saman við glæpastjórnir þriðja heimsins, svo sem Argentínu, eða við hitt risaveldið, Bandaríkin. Í öllum tilvikum skilur hugmyndafræðin og heimsvaldastefnan á milli, skapar eðlismun.
Barnalegt er að ætla, að friðargöngur á Vesturlöndum stuðli að friði í heiminum. Þær stuðla fremur að ófriði, því að þær sannfæra hina hugsanabrengluðu forlagatrúarmenn í Moskvu um óhjákvæmilega innri rotnun Vesturlanda.
Ráðamenn Sovétríkjanna líta á hina svonefndu slökun í heimsmálunum sem eina aðferð við að svæfa Vesturlönd og flýta fyrir hinni óhjákvæmilegu niðurstöðu, heimsyfirráðum. Þetta kemur víða fram í hugmyndafræði þeirra.
Á tímum kalda stríðsins var talað um nytsama sakleysingja. Þetta orðalag á ekki síður við núna. Það lýsir vel þeim hópi, sem fer Keflavíkurgöngur og telur sig stuðla að heimsfriði, en er í raun að sá til árásar úr austri.
Hinir nytsömu sakleysingjar í Keflavíkurgöngum draga úr möguleikum einstaklinga eins og fjölskyldu Kortsjnojs og þúsunda annarra þræla sovétkerfisins til að öðlast frelsi. Sakleysingjarnir svíkja þetta fólk óafvitandi.
Hinir nytsömu sakleysingjar í Keflavíkurgöngum draga úr möguleikum Afgana til að fá frið í eigin landi og úr möguleikum Pólverja til að fá að lifa í friði í eigin landi. Sakleysingjarnir svíkja þessar þjóðir óafvitandi.
Hinir nytsömu sakleysingjar í Keflavíkurgöngum draga síðast en ekki sízt úr möguleikum Vesturlandabúa til að beina fjármagni sínu til arðbærari verkefna en vígbúnaðar. Sakleysingjarnir svíkja þetta fólk, nágranna sína, óafvitandi.
Fleiri eru nytsamir sakleysingjar en Keflavíkurgöngumenn. Þingmannsræflarnir þrír, sem nýlega létu hafa sig að fíflum í opinberri heimsókn til Sovétríkjanna, stuðluðu líka að viðhaldi hinnar brengluðu og undnu forlagatrúar.
Þeir létu sig í stórum dráttum hafa það að sitja undir áróðursræðum án þess að mega svara í sömu mynt, að því er virðist aðeins til að geta haldið áfram lystireisum og veizluhöldum. Slíkir menn grafa undan Vesturlöndum.
Við eigum engan kost betri en að halda áfram eins konar köldu stríði, meðal annars í formi Atlantshafsbandalagsins, – í þeirri von, að um síðir vakni ráðamenn Sovétríkjanna af heimsvaldadraumum og láti af forlagatrú sinni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið