Því miður verða kosningaúrslitin í Ísrael ekki til að bæta friðarhorfur fyrir botni Miðjarðarhafs. Flokkur Begins forsætisráðherra hefur bætt við sig nokkrum þingsætum og virðist hafa góða möguleika á myndun nýrrar samsteypustjórnar.
Fyrir nokkrum vikum stóðu vonir til, að Verkamannaflokkur Peresar mundi ná völdum í þessum kosningum. Hann jók að vísu þingmannatöluna um 50%, en vantaði töluvert upp í hreinan meirihluta og á ekki hægt um bandamenn.
Peres og menn hans eru ekki eins einstrengingslegir í málum Palestínu og Begin hefur reynzt. Þeir líta á vesturbakka Jórdan sem hernaðarlega mikilvægt svæði Ísraelsmönnum, en ekki beinlínis sem gjöf frá guði.
Ef Begin verður nú endurkjörinn forsætisráðherra, munu ráðamenn nágrannaríkjanna styrkjast í þeirri trú, að ekki sé né verði unnt að lifa í friði með Ísrael. Þar á meðal er Sadat Egyptalandsforseti, sem hefur mátt þola Begin margt.
Eina jákvæða niðurstaða þingkosninganna í Ísrael er hrun hinna 30 smáflokka, sem hafa flækzt fyrir, margir hverjir með einkar sérvizkulegar stefnuskrár. Stóru flokkarnir tveir hafa nú um 100 af 120 þingmönnum.
Dapurlegust er aðferðin, sem Begin beitti til að bjarga flokki sínum frá hruni og hindra valdatöku Peresar. Hún fólst í að fara með ófriði á hendur nágrannaríkjunum og æsa upp frumstæðar þjóðernishvatir heimamanna.
Hann byrjaði að ljúga upp á Schmidt, kanslara Vestur-Þýzkalands, þátttöku í ábyrgð á gyðingamorðum í síðari heimsstyrjöldinni. Því miður reyndust margir Ísraelsmenn vera ánægðir með þennan og annan ruddagang Begins.
Síðan lét Begin herinn gera loftárásir á sýrlenzkar stöðvar loftvarnaflauga í Líbanon, einnig við mikinn fögnuð. Mest klöppuðu menn þó, þegar hann lét í loftárás eyðileggja kjarnorkukljúf í Írak hinn 7. júní.
Aðgerðir sem þessar bæta engu við öryggi Ísraels. Þær þjappa saman ósamstæðum stjórnvöldum í Arabaríkjum og draga ekkert úr möguleikum þeirra á að vinna Ísrael meira eða minna tjón. Og þær reyna mjög á þolrif bandarískra stjórnvalda.
Begin hefur orðið frægur af því að vinna kosningar á því að gera loftárásir á önnur lönd. Vonandi taka þjóðarleiðtogar annars staðar ekki upp þessa sérkennilegu og hættulegu tegund kosningabaráttu. Hún endar með skelfingu.
Eflum vörzlu við Smyril.
Eftirliti með ferðum útlendinga úr landi er mjög ábótavant, þótt menn séu einstaka sinnum gripnir með fálka, egg eða steina. Núverandi eftirlit byggist nær eingöngu á rökstuddum grun og nær örugglega ekki til allra brotlegra.
Til mikilla bóta yrði að efla tollvörzlu við bílaferjuna Smyril á Seyðisfirði og skylda menn til að koma með bíla sína með meiri fyrirvara, svo að betri tími fáist til að leita. Í bílum er nefnilega hægt að smygla meiru en í venjulegum farangri.
Smyglið úr landi hefur leitt til þurrðar á zeolítum og geislasteinum, ópali og silfurbergi. Það hefur líka valdið áhyggjum af fálkastofninum og nokkrum stofnum Mývatnsanda. Á ýmsum slíkum sviðum er ekki lengur af nógu að taka.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið