Beizlun kjarnasamruna er endanleg lausn á orkuþörf mannkyns. Nóg er til af þungu vetni til 100.000 milljón ára, til margfalt lengri tíma en sólkerfið mun endast. Orkukreppa nútímans er því bara tímabundið ástand.
Kjarnasamruni er einkar ánægjuleg orkulind. Hráefni hans og úrgangur er vatn. Ekki er reiknað með, að nein umhverfisvandamál fylgi kjarnasamruna, né geislavirkur úrgangur. Þetta er gerólíkt núverandi kjarnasprengistöðvum.
Vísindamenn eru komnir vel á veg í kjarnasamruna. Þegar hefur verið byrjað á smíði fyrstu tilraunastöðvarinnar í Kaliforníu. Ef vel tekst til, á hún að geta framleitt margfalt meiri orku en öll íslenzk orkuver samanlögð.
Jakob Björnsson orkumálastjóri var á alþjóðlegri orkuráðstefnu í vetur. Hann telur, að um 40 ár líði, unz kjarnasamruninn leysi orkukreppuna af hólmi. Það er álíka langur tími og liðinn er, síðan hitaveita kom til sögunnar á Íslandi.
Guðmundur G. Þórarinsson er sá alþingismaður, sem mest hefur látið sig orkumál varða. Hann hefur það eftir Richard Post, prófessor við framangreinda tilraunastöð, að kjarnasamruninn verði að veruleika eftir 15-25 ár.
Menn nota mismunandi ártöl, en eru sammála um, að orkuframtíð mannkyns sé björt og að olíukreppan sé tímabundið vandamál. Þegar olían rennur til þurrðar, mun ný og ótæmandi orkulind taka við, vatnið sjálft.
Þessi bjarta framtíð mun flytja okkur Íslendingum það óhagræði, að sérstaða okkar sem eigenda orku mun hverfa að mestu. Allir munu verða sjálfum sér nógir og þurfa ekki að leita til Íslands.
Þetta þýðir, að við þurfum að nota sem bezt þau 20-40 ár, sem við höfum til umráða, – þann tíma, sem okkar orka er ódýrari en önnur. Við þurfum að virkja sem hraðast og afla orkuverunum tekna til að greiða niður stofnkostnað.
Það gildir um vatnsorkuna og jarðhitann eins og kjarnasamrunann, að mestur hluti kostnaðar er stofnkostnaður. Eiginlegur rekstrarkostnaður er sáralítill. Afskrifuð orkuver á öllum þessum sviðum eru hagkvæmustu orkuverin.
Þau orkuver, sem við eigum afskrifuð að 20 eða 40 árum liðnum, verða mjög vel samkeppnishæf við kjarnasamrunastöðvar. Af þessu má ljóst vera, að við megum engan tíma missa. Við verðum að vekja Hjörleif Guttormsson.
Vandinn er ekki mestur við undirbúning nýrra virkjana. Við erum komin svo vel á veg, að við getum hafið starfrækslu nýs vatnsorkuvers á þriggja ára fresti fram til aldamóta, án þess að leggja eins hart að okkur fjárhagslega og hingað til.
Vandinn er hins vegar sá að selja alla þessa orku. Á því sviði hefur til skamms tíma vantað pólitíska samstöðu þjóðarinnar. Óbeit á orkufrekum iðnaði er rík og Alþýðubandalagið hefur magnað hana sem mest það má.
En nú loksins virðast skoðanir á stóriðju vera að renna í einn farveg: að eignaraðild geti verið með ýmsum hætti, en stefna beri að virkum yfirráðum Íslendinga með virkri þátttöku í markaðsmálum, tækni og stjórnun.
Viðræður um orkufrekan iðnað við erlenda aðila hafa að verulegu leyti legið niðri í nokkur ár. En nú verðum við að taka til höndum, svo að hin mikla orkueign okkar renni ekki út í sandinn á næstu 20-40 árum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið