Í deilunni um opnunartíma verzlana rekast á tvö ólík sjónarmið. Annars vegar standa þeir, sem vilja miðstýringu sem mesta, og hins vegar þeir, sem vilja hafa hana sem minnsta og vilja dreifa valdinu í þjóðfélaginu.
Fremstur í flokki þeirra, sem vita, hvað er fólki fyrir beztu, og vilja hafa vit fyrir því, er Magnús L. Sveinsson borgarfulltrúi, formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og sérleg Jóhanna af Örk Kaupmannasamtakanna.
Athyglisvert er að Magnús er talinn til Sjálfstæðisflokksins. Það er eitt dæmi af mörgum um, að menn raðast ekki nema að litlu leyti í flokka eftir viðhorfum til miðstýringar og valddreifingar.
Magnús hefur bent neytendum á, að þeir þurfi ekki á sumrin á opnum verzlunum á laugardögum að halda enda muni þeir ekki notfæra sér slíka opnun. Magnús veit þannig, hvað er fólki fyrir beztu og vill hafa vit fyrir því.
Hugarfarið er mjög svipað og hjá talsmönnum landbúnaðarins, sem hafa árum saman tönnlazt á, að kröfur neytenda um breytt sölukerfi landbúnaðarafurða muni leiða til hækkaðs vöruverðs og þess vegna ekki vera í þágu neytenda.
Öllum þessum mönnum er illa við, að neytendur geti ákveðið slík mál sjálfir, til dæmis hvort þeir þurfi að verzla utan þröngra marka, sem einokunarhringur Verzlunarmannafélagsins og Kaupmannasamtakanna hefur látið setja.
Staðreyndin er þó sú, að til eru neytendur, kaupmenn og verzlunarmenn, sem telja þarfir sínar vera aðrar en þær, sem Magnús og fleiri hafa úrskurðað. Þetta fólk vildi helzt fá að lifa í friði fyrir miðstýrendum.
Sumar kaupmannafjölskyldur vilja hafa lengur opið, til dæmis til að nýta betur dýrt húsnæði eða til að vinna sig upp fjárhagslega. Þessar fjölskyldur skilja ekki, að frelsið þurfi að leiða til dýrara verzlunarúthalds.
Dæmin sanna, að þessar fjölskyldur geta þjónustað neytendur án þess að þræla út félagsmönnum Verzlunarmannafélagsins utan venjulegs vinnutíma. Við slíkar aðstæður er málsaðild Magnúsar miðstýranda orðin næsta óljós.
Sumir neytendur hafa slíkan vinnutíma, að þeir vilja geta verzlað utan venjulegs vinnutíma verzlunarmanna. Aðrir neytendur gleyma einhverjum vörum á “rétta” tímanum eða standa allt í einu andspænis óvæntri vöruþörf.
Ekki verður séð, að kaupmenn og neytendur með ofangreindar eða aðrar sérþarfir séu neitt fyrir í þjóðfélaginu eða valdi neinum áþreifanlegum vandræðum, öðrum en að trufla skipulagshyggju miðstýrenda þessa lands.
Auðvitað liggja svo að baki hagsmunir þeirra kaupmanna, sem ekki nenna að hafa fyrir því að þjónusta neytendur utan venjulegs vinnutíma. Þeir hafa völdin í Kaupmannasamtökunum og beita Verzlunarmannafélaginu fyrir vagninn.
Þessir hagsmunir falla saman við mjög svo útbreidda skipulagshyggju meðal stjórnmálamanna þjóðarinnar, hvar í flokki sem þeir standa. Þeir fá þarna enn eitt tækifærið til að skipuleggja, miðstýra, soga til sín vald.
Afleiðingin er sú, að opinberar nefndir, stjórnir og ráð sitja á löngum fundum ár eftir ár til að velta vöngum um, hvort loka skuli klukkan þetta eða hitt. Engum þeirra dettur í hug, að þeir séu með óþarfa afskiptasemi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið