Friðarfundir og friðargöngur á Vesturlöndum eru nýjasta hálmstrá Kremlverja, tilraun þeirra til sóknar gegn vaxandi skilningi Vesturlandabúa á hinni austrænu heimsvaldastefnu, nakinni forlagatrú hennar og einsýni.
Einstefnan er ljós: Hafi Kremlverjar eignazt ríki, verður ekki aftur snúið, svo sem pólska dæmið sýnir. Jafnframt geta Kremlverjar eignazt ný ríki, svo sem afganska dæmið sýnir. Þannig á að sigra heiminn.
Kremlverjar geta unnið lönd, en þeir eru hættir að vinna sálir manna. Erindrekum þeirra á Vesturlöndum hefur farið hríðfækkandi, einkum eftir harmleikina í Austur-Berlin, Búdapest og Prag.
Sjónhverfingar friðarsóknar Kremlverja eru því orðnar erfiðar í framkvæmd. Samt hefur nú enn einu sinni verið blásið til einnar slíkrar. Takmarkið er eins og áður að svæfa Vesturlandabúa, sem eru langþreyttir á vígbúnaði.
Svo sem fyrr beinist áróðurinn einkum að nytsömum sakleysingjum, undir og yfir lögaldri. Þessir sakleysingjar eru réttilega andvígir brauki og bramli og vantreysta réttilega eigin stjórnvöldum, þar á meðal í kjarnorkumálum.
Þverstæðan í hugsun sakleysingjanna er svo sú, að samhliða þessu vantrausti virðast þeir treysta Kremlverjum, halda þá vilja friðsamlega sambúð, ímynda sér þá hafa látið af forlagatrú heimsvaldastefnunnar.
Í rauninni er friðsamleg sambúð aðeins einn þáttur heimsvaldastefnu Kremlverja, eins konar vögguljóð fyrir næsta högg eða eftir það síðasta. Markmiðið er eigi að síður óbreytt, yfirráð allrar jarðarinnar. Því miður.
Í baráttunni um sakleysingjana hafa Kremlverjar mikinn stuðning af ómerkilegum stjórnmálamönnum á borð við Evensen hinn norska, sem reyna að bæta sér upp á þessum vettvangi lækkandi gengi í almennum stjórnmálum.
Svo eru það kaupmenn á borð við Willy Brandt, sem ætluðu að róa Kremlverja með viðskiptum, en urðu í staðinn svo háðir þessum viðskiptum, að heil ríki á borð við Vestur-Þýzkaland eru að Finnlandiserast.
Hér er þetta orð notað, af því að allir kannast við innihald þess. Það er hins vegar ekki sanngjarnt gagnvart Finnum, sem þekkja flestum öðrum betur ógnir Kremlverja og sofa eins og Pólverjar með byssuna við rúmstokkinn.
Friðarsókn Kremlverja á norðurvígstöðvunum stefnir að kjarnorkuvopnalausu svæði í nágrenni hins mikla víghreiðurs á Kola-skaga. Vel má vera, að þeim takist þetta, því að sakleysingjar eru fjölmennir á Norðurlöndum.
Þetta er þó ekki aðalatriði máls Kremlverja, því að kjarnorkuvopn á landi verða senn úrelt. Kapphlaupið felst í smíði kafbáta með langdrægum kjarnorkueldflaugum, sem skjóta má heimshorna milli. Atómdauðinn er í höndum taugaveiklaðra skipherra kafbáta.
Markmið Kremlverja er takmarkaðra. Þeir vilja halda Vesturlandabúum uppi á snakki um frið. Þeir vilja, að við séum á friðarfundum og í friðargöngum og látum undan óskhyggjunni.
Friðvænlegra væri þó, að menn héldu svo vel vöku sinni, að Kremlverjar fari um síðir að efast um gildi forlagatrúar heimsvaldastefnunnar. Það getur gerzt, en hefur ekki gerzt enn. Sú er okkar eina, veika von um frið.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið