Sjöfn er bezt.

Greinar

Vegna Sjafnar Sigurbjörnsdóttur er hægt að fyrirgefa borgarstjórn Reykjavíkur margt. Hún hefur lag á að koma á óvart og raska geðprýði þríeykis Sigurjóns Péturssonar, Björgvins Guðmundssonar og Kristjáns Benediktssonar.

Eins og sönnum stjórnmálamönnum sæmir hafa reykvískir borgarfulltrúar komið sér upp tveggja mánaða sumarleyfi á fullum launum. Þennan lúxus hefur Sjöfn nú sprengt í loft upp og reitt samstarfsmennina til reiði.

Ástæðan er sennilega sú, að í fyrra misnotaði þríeykið sumarfrí borgarstjórnar og tveggja mánaða alræðisvald til að samþykkja í borgarráði að kaupa nokkra Íkarus strætisvagna, sem ekki var meirihluti fyrir í borgarstjórn.

Að vetrarlagi eru borgarstjórnarfundir yfirleitt tvisvar í mánuði og stundum einu sinni, þegar frídag ber upp á fimmtudag. Það ætti því ekki að lama borgarstjórn, þótt eins mánaðar hlé sé milli ákvarðana á sumrin.

Nefndir og ráð borgarinnar starfa á sumrin. Ekkert bendir til, að borgarstjórnin sjálf þurfi lengra sumarfrí en aðrir. Hún getur látið sér nægja einn mánuð milli funda í júlí og ágúst, svo er Sjöfn fyrir að þakka.

Raunar var það alltaf einstaklega ólýðræðislegt, að borgarstjórn afsalaði sér völdum á sumrin og fól borgarráði alræðisvald. Það gekk, meðan meirihluti var traustur, en var andstætt anda lýðræðis.

Sjöfn gerði raunar ekki annað en að leggja til, að ákvarðanir borgarráðs á alræðistímanum yrðu síðan bornar undir borgarstjórn á haustin. Þetta er raunar svo sjálfsagt, að ekki ætti að þurfa um það tillögu.

Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn er auðvitað upprunalega ábyrgur fyrir hinu ólýðræðislega kerfi. Fulltrúar hans skákuðu í skjóli þess, að batnandi manni er bezt að lifa, og studdu tillögu Sjafnar til sigurs.

Það var rétt ákvörðun, þótt ekki væri nema bara til að sýna fram á, að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík er enginn meirihluti, nema þegar Sjöfn þóknast. Og sem betur fer þóknast henni ekki alltaf.

Svo hella sjálfstæðismenn salti í sár þríeykisins með því að heimta fund í borgarstjórn til að sýna fram á, að þeir séu ekki að tefja fyrir framgangi neinna mála. Þeir segjast tilbúnir að mæta í vinnu.

Þetta bragð kom í opna skjöldu meirihlutamönnum, sem voru í vellystingum praktuglega í útlöndum. Þeir verða nú að hlaupa upp til handa og fóta til að vinna fyrir kaupinu sínu. Það er von, að þeir séu reiðir.

Enginn borgarfulltrúi hefur á þessu kjörtímabili verið skammaður oftar og rækilegar en einmitt Sjöfn Sigurbjörnsdóttir. Kannski er það hún, sem hefur gert Björgvin svo gráhærðan, að hann er að draga sig í hlé útgerðarstjóra.

Sjöfn er hins vegar merkari borgarfulltrúi en hinir, sem hafa nítt hana niður. Hún hefur ekki misst sjón barnsins, sem sá að keisarinn var ekki í neinu. Hún veit, að hún hefur lýðræðislegt umboð til að fara eftir samvizkunni.

Vonandi fá Reykvíkingar aftur tækifæri til að greiða Sjöfn atkvæði til borgarstjórnar. Við þurfum á henni að halda og fleiri slíkum, svo að lýðræði verði virkara í stjórnmálum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið