Sumir geta lært.

Greinar

Valdamenn á Íslandi eiga yfirleitt mjög erfitt með að viðurkenna mistök sín. Þeim finnst niðurlægjandi að láta almenningsálit beygja sig af rangri braut inn á rétta. Þeir streitast við að halda í metnaðinn.

Heilbrigðisyfirvöld streitast við að halda í undanþágu Mjólkursamsölunnar til að selja neytendum súra og fúla mjólk. Borgaryfirvöld streitast við að grafa upp Torfubrekkuna, þótt rökstudd mótmæli njóti almenns stuðnings.

Mjög fáir valdamenn átta sig á, að þeir verða menn að meiri fyrir að viðurkenna mistök og kúvenda af hinni röngu braut. Slíkt gerðist þó í síðustu viku, þegar ráðamenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja breyttu um sumarhúsastefnu.

Þeir höfðu þá um skeið staðið í samningum við danskt fyrirtæki, sem átti eitt hæstu tilboðanna, þegar boðin voru út 15 sumarhús að Eiðum á Fljótsdalshéraði og önnur 15 eins að Stóru-Skógum við Munaðarnes.

Eftir mikla gagnrýni ákváðu ráðamenn BSRB að hætta þessum samningum og bjóða húsin út að nýju og þá væntanlega með útboðslýsingu við hæfi. Þar með viðurkenndu þeir, að fyrra útboðið hafði verið gallað af þeirra hálfu.

Hofmóður valdamanna skein þó örlítið í gegnum fullyrðinguna um, að “hávaðinn” í Dagblaðinu út af málinu hefði engin áhrif haft á stefnubreytinguna. En það er skárri og skiljanlegri hofmóður en þeirra, sem ekkert vilja læra.

Í útboðum eru settar fram ákveðnar kröfur, sem eru í samræmi við þarfir verkkaupa. Síðan er tekið lægsta tilboði af þeim, sem eru talin vera í samræmi við kröfurnar, er settar voru fram í útboðslýsingu.

Undantekningar á þessu eru mjög fáar og byggjast einkum á efasemdum um, að verktaki hafi bolmagn eða reynslu til að vinna verkið samkvæmt tilboði. Þá verður lægsta tilboðið stundum að víkja fyrir hinu næstlægsta.

Eftir viðtöku tilboða í sumarhúsin virðist ráðamönnum BSRB skyndilega hafa dottið í hug, að húsin þyrftu að vera miklu vandaðri en lýst var í útboði. Þau ættu að hafa þrefalda glugga og óvenju mikla einangrun.

Þess vegna voru ekki hafnir samningar við þá hinna 21 tilboðsaðila, sem lægstir voru – á um það bil 5,5 milljónir nýkróna. Í staðinn var farið að ræða við einn af þeim, sem hæstir voru – á um það bil 8 milljónir nýkróna.

Lægstu tilboðsaðilarnir voru íslenzkir og höfðu gott orð á sér, þar á meðal einn fyrir byggingu vandaðra sumarhúsa fyrir BSRB. Þeir töldu auðvitað ranglátt af BSRB að ræða bara við danskan aðila úr hópi hæstbjóðandi.

Kristján Thorlacius, formaður BSRB, sagði í gremju sinni, að það væri “ekki hlutverk BSRB að styrkja íslenzkan iðnað sérstaklega” og að BSRB eigi ekki “að fara að greiða niður innlendar iðnaðarvörur”.

Þetta var ógætilega sagt, eftir að íslenzkur iðnaður hafði átt öll lægstu tilboðin, sem stóðust gæðakröfur útboðs BSRB. Ekki var verið að biðja um fríðindi fyrir iðnaðinn, heldur aðeins, að ekki væri hrækt framan í hann.

Nú er málið blessunarlega leyst með nýju útboði, sem BSRB getur væntanlega staðið við. Íslenzkur iðnaður fær þá nýtt tækifæri, því að mikið svigrúm er til gæðaaukningar milli 5,5 og 8 milljón nýkróna. Og BSRB-menn eru menn að meiri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið