Hringurinn þrengist.

Greinar

Heilbrigðiseftirlitið hefur vaknað upp við vondan draum og kært Mjólkursamsöluna í Reykjavík. Mjólkurfræðingafélag Íslands hefur vísað sökinni á fúlli og súrri mjólk á hendur mjólkursamlaganna. Loksins er því komin hreyfing á mjólkurmálin.

Heilbrigðiseftirlitið kærði Samsöluna til ríkissaksóknara og óskaði opinberrar rannsóknar á ýmsum atriðum. Jafnframt krafðist það afnáms undanþágna og styttingar dagstimplunar úr þriggja daga fyrirvara í tveggja daga á sumrin.

Heilbrigðiseftirlitið kvartar um, að undanþágur séu leyfðar án samþykkis þess og að gildandi reglur um dagstimplun mjólkur séu brotnar. En það hefur einmitt komið fram í fréttum, að Samsalan hefur oft stimplað mjólk fimm daga fram í tímann.

Heilbrigðiseftirlitið kvartar um, að óheimilli forhitun mjólkur sé beitt í mjólkurbúunum í Borgarnesi og á Selfossi. Forhitun lengir vinnslutímann, en drepur mjólkursýrugerla og gefur rotnunargerlum meira svigrúm.

Heilbrigðiseftirlitið kvartar um, að mannleg mistök hafi orðið við vinnslu mjólkur, svo sem að þriðja flokks mjólk hafi verið sett saman við fyrsta og annan flokk, og geymsluþolið hafi þar með verið minnkað.

Í yfirlýsingu mjólkurfræðinga segir, að geymsluþol mjólkur væri allt annað og meira ef farið hefði verið eftir tillögum þeirra. Neita þeir ábyrgð og segjast ekki vilja liggja undir ámæli fyrir atriði, sem aðrir ráði.

Þeir segja, að við endurskoðun reglugerðar um mjólk árið 1978 hafi nær ekkert tillit verið tekið til sjónarmiða þeirra, heldur nær eingöngu farið eftir óskum forráðamanna mjólkursamlaganna. Því hafi mjólkurfræðingar dregið sig úr nefndinni.

Í framhaldi af þessu lögðu mjólkurfræðingar árið 1979 inn greinargerð, þar sem varað var við ýmsum atriðum hinnar nýju reglugerðar. Ekkert virðist hafa verið farið eftir þessum ábendingum, nema það verði þá gert núna.

Mjólkurfræðingar vöruðu við oftrú á mjólkurtönkum og rafkælingu hjá bændum, sem frestaði að vísu súrnun,en gæti samt leitt til skemmda, svo að mjólkin ætti lítið skylt við almennilega mjólk þegar hún kæmi í mjólkurbú.

Mjólkurfræðingar sögðust alltaf hafa barizt gegn forhitun á neyzlumjólk og bent á,að varasamt sé að gera mjólkina svo gamla, að forhitun ein geti hindrað, að hún stórskemmist í meðförum mjólkursamlaganna.

Mjólkurfræðingar töldu fásinnu, að 25% mjólkur, sem berst mjólkursamlagi, megi vera annars flokks og teljast samt til fyrsta flokks. Ennfremur lögðust þeir gegn, að mjólk með fúkalyfjum væri ekki felld í verði.

Sigurður Pétursson gerlafræðingur lagði nýlega til í Dagblaðinu, að mjólk yrði sótt til bænda á laugardögum og unnin í mjólkurbúum á laugardögum. Ennfremur, að neyzlumjólk sé sótt sem næst Reykjavík, en hitt fari í vinnslu.

Sigurður Pétursson hefur skýrt frá fjögurra ára gamalli rannsókn, sem sýndi hættur forhitunar mjólkur og alvarleg misferli í meðferð hennar. Sömuleiðis truflandi áhrif fúkalyfja á framleiðslu osta og súrmjólkur.

Ekkert mark var tekið á þessu frekar en öðrum ábendingum. Enda segir forstöðumaður heilbrigðiseftirlitsins nú, að vinnsluaðilar og framleiðendur hafi leyst geymsluvanda mjólkur á kostnað neytenda. Því verður að linna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið