Of snemmt er að fagna úrslitum tilrauna Friðriks Ólafssonar til að fá fjölskyldu Kortsjnojs leysta úr Sovétríkjunum. Ekki er tímabært að gera það, fyrr en fjölskyldan sleppur, ef hún fær á annað borð að fara.
Ráðamenn Sovétríkjanna hafa komið krók á Friðrik með því að fá hann til að samþykkja að flýta einvígi Kortsjnojs og Karpovs um heimsmeistaratitilinn um einn mánuð, til hins upprunalega einvígistíma í september.
Ítalirnir, sem skipuleggja einvígið í Merano, hafa undanfarna daga verið önnum kafnir við að reyna að verða við þessari breytingu. Ef þeim tekst það, verður áreiðanlega mjög takmarkað svigrúm til síðari breytinga.
Hvað gerir Friðrik, ef Baturinski, varaforseti sovézka skáksambandsins, uppgötvar allt í einu, að nýjasta umsóknin um frelsun fjölskyldu Kortsjnojs hafi verið gerð í fjórriti, en ekki í fimmriti, eins og áskilið sé?
Ítalirnir verða áreiðanlega mjög reiðir, og því miður ekki við Baturinski, heldur við Friðrik, sem er ábyrgur fyrir einvíginu sem forseti alþjóðlega skáksambandsins. Segja þeir ekki bara nei takk, ef Friðrik vill nýja frestun?
Sovézk stjórnvöld hafa komið sér upp taflstöðu, sem þau eru sérfræðingar í. Þau láta klukkuna ganga á andstæðinginn, í þessu tilviki Friðrik. Þau hafa þrengt verulega möguleika hans á að mæta nýjum leikjum í taflinu.
Þeim mun nær sem einvígið færist, þeim mun örðugara verður fyrir Friðrik að bregðast við nýjum viðhorfum, nýjum brögðum, nýju undirferli. Baturinski er nokkurn veginn búinn að hindra frekari tilfærslur einvígisins.
Friðrik er ekki öfundsverður af máli þessu. Það er illt að þurfa að sitja að samningum við glæpamenn um svo sjálfsagðan hlut, að jafnræði skuli vera með keppendum í heimsmeistaraeinvígi. Og það hefur Friðrik orðið að reyna.
Við slíkar aðstæður verður sjálfsagt að gera fleira en gott þykir. En velsæmið setur því þó takmörk, auk þess sem Friðrik er siðferðilega skyldugur til að sjá um, að fantabrögð séu ekki leyfð í skák, einni alþjóðlegra keppnisgreina.
Óneitanlega er hrollvekjandi að lesa í greinargerð Friðriks: “Í viðræðum þessum varð forsetinn þess áskynja, að nánir ættingjar áskorandans höfðu aldrei lagt fram gilda umsókn fyrir fjölskyldu hans um að ná fundum hans …”
Ein út fyrir sig eru þess orð dónaskapur í garð allra þeirra, sem hafa í fimm ár árangurslaust reynt að fá sovézka ráðamenn til að verða við óskum konu og sonar Kortsjnojs um að fá að fara úr landi.
Allir munu þó fyrirgefa Friðrik þetta, ef það er hvimleiður þáttur í gulltryggu samkomulagi um frelsun fjölskyldunnar. Það er að vísu grátlegt að sjá góða drengi beygja sig fyrir lyginni, en árangurinn skiptir töluverðu máli.
Því miður er ástæða til að óttast, að ráðamenn Sovétríkjanna hafi ekki leikið sínum síðustu leikjum í tafli þessu. Þeir eru sérfræðingar í undanbrögðum á síðustu stundu, þegar svigrúm til svara er horfið.
Ef Baturinski reynist hafa setið á svikráðum við Friðrik, á skákmeistari okkar varla nema einn varnarleik eftir í tímahrakinu. Það er að aflýsa einvíginu hreinlega og boða ekki á ný til þess, fyrr en fjölskyldan er sloppin úr Víti.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið