Stjórn Sovétríkjanna hóf nýja umferð í kjarnorkukapphlaupinu í fyrra, þegar hún byrjaði að koma fyrir meðaldrægum SS-20 kjarnorkueldflaugum, sem ná til Kína og Evrópu, þar á meðal til Íslands, en ekki til Bandaríkjanna.
Búizt er við, að um miðjan þennan áratug verði um 750 slíkum kjarnaoddum beint gegn Evrópu og Kína, hver um sig með afli 30 Hiroshima kjarnorkusprengja. Þessi nýi vígbúnaður setur Vestur-Evrópu undir gífurlegan þrýsting.
Ekki er vitað til, að lútersk heimskirkjuráð, friðargöngumenn, menningar- og friðarsamtök kvenna eða norskir jafnaðarmenn hafi lagt mjög hart að sér við að vekja athygli á þessum vígbúnaði og mótmæla ofbeldishneigðinni að baki.
Hins vegar hefur stjórn Bandaríkjanna stuðning stjórna helztu ríkja Atlantshafsbandalagsins fyrir því að svara með því að koma upp á sama tíma í Evrópu meðaldrægum Pershing II kjarnorkueldflaugum með samtals um 570 kjarnaoddum.
Með þessum hætti er reiknað með, að Vestur-Evrópa geti haldið sínu gagnvart Sovétríkjunum, til dæmis í samningum, – og þurfi ekki að sæta svonefndri Finnlandiséringu undir knýjandi þrýstingi 750 kjarnaodda.
Eins og jafnan, þegar Atlantshafsbandalagið stendur andspænis ákvörðun af slíku tagi, byrjar stjórn Sovétríkjanna nýja friðarsókn. Nytsamir sakleysingjar á Norðurlöndum, í Hollandi og Vestur-Þýzkalandi eru settir í gang.
Undanfarnar vikur hefur ekki linnt friðargöngum, kirkjulegum ráðstefnum og öðrum aðgerðum gegn Pershing II eldflaugunum, jafnvel þótt þær séu aðeins síðbúið og ekki ýkt svar við nýrri ógnun af hálfu Sovétríkjanna.
Afleiðingin er sú, að Helmut Schmidt, kanzlari Vestur-Þýzkalands hefur átt í erfiðleikum með að fá vinstri arm flokks síns til að samþykkja eldflaugarnar og að óvíst er, að þeim verði komið fyrir í Hollandi og Belgíu.
Önnur friðarsókn stjórnar Sovétríkjanna var að senda hinn aldna Willy Brandt vestur fyrir tjald með óljósar hugmyndir um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, sem hugsanlega næði eitthvað inn í Sovétríkin.
Þetta var tekið upp í fáti af norskum jafnaðarmönnum, enda flutti Evensen, fyrrum hafréttarráðherra, þeim þá lögskýringu, að Norðurlönd væru ekki kjarnorkuvopnalaust svæði, þótt þau væru kjarnorkuvopnalaus!
Jafnaðarmannastjórnin í Noregi virðist nú hafa áttað sig á eðli málsins. Hún ætlaði sér þetta sem bombu í erfiðri kosningabaráttu, en virðist nú telja, að bomban gæti sprungið í höndum hennar sjálfrar.
Samt er ekki ástæða til að gleyma skilaboðunum, sem Willy Brandt flutti frá Kreml. Æskilegt er að biðja um nánari skýringar. Menn þurfa jafnan að vera tilbúnir að ræða málin og semja, þótt þeir láti ekki svæfa sig á verðinum.
Við þurfum að vita um eitt mesta víghreiður heimsins, Kolaskaga Sovétríkjanna, í næsta nágrenni Norðurlandanna, hvaða hlutverki það gegnir í skilaboðunum. Og við þurfum að fá að sjá hið víðara, evrópska samhengi málsins.
Loks skulum við taka mark á Mitterrand, hinum nýja forseta Frakklands, sem er svo vinsæll, að Alþýðubandalagið eignar sér hann. Mitterrand hefur einmitt hvatt til aukinnar festu Vesturlanda í samskiptum við Sovétríkin.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið