Bretar eiga mikinn þátt í að koma á þeim mannasiðum í mannlegum samskiptum, sem við köllum lýðræði. Þeir fundu það að vísu ekki upp, en þeir festu það í sessi. Þeir eiga hjartarúm hjá lýðræðissinnum um allan heim.
Þess vegna er hörmulegt að horfa á helreið Bretlands undir víxlforustu sífellt róttækari hægri og vinstri manna. Atvinnuleysið er komið upp í 12%. Aðeins annar hver unglingur, sem kemur úr skóla, getur búizt við vinnu.
Annars vegar eru óhæfir verksmiðjustjórar, sem láta aka sér um í Rolls Royce og senda börnin í einkaskóla. Hins vegar eru jafn óhæfir verkalýðsrekendur, sem láta sig engu skipta þjóðarhag og framtíð atvinnutækifæra.
Annars vegar er Thatcher forsætisráðherra, sem er svo leiftursóknarsinnuð, að hún beinlínis trúir á mátt atvinnuleysisins. Hins vegar eru hinir róttæku stjórnarandstæðingar Foot og Benn, sem ekki eru síður hættulegir.
En nú er þriðja aflið komið til sögunnar, samtök Frjálslynda flokksins og hins nýja flokks sósíaldemókrata. Við þetta afl binda Bretlandsvinir miklar vonir, enda hefur það möguleika á að ná meirihluta í næstu kosningum.
Gamla kempan Roy Jenkins náði glæsilegum árangri fyrir þriðja aflið í aukakosningunum í Warrington fyrir nokkrum dögum. Hann náði 42% atkvæða og var aðeins hársbreidd frá sigri í þessu áður örugga kjördæmi Verkamannaflokksins.
Reiknað hefur verið út, að með sams konar árangri í almennum kosningum mundi þriðja aflið fá 501 þingsæti af 635, Verkamannaflokkurinn 113 og Íhaldsflokkurinn aðeins eitt. Það yrðu straumhvörf í brezkum stjórnmálum.
Til þess að hafa hemil á óskhyggjunni er rétt að taka fram, að aukakosningar eru einkar ótryggur mælikvarði í kosningaspám. Ennfremur hefur þriðja aflið ekki 635 Jenkinsa til að bjóða fram í öllum kjördæmum landsins.
Einnig þarf að athuga, að hinir frambjóðendurnir í Warrington voru svo lélegir, að í fréttum af kosningabaráttunni bar Jenkins af eins og gull af eiri. Og sá sem bar sigur af hólmi, væri hér talinn til vinstri við Alþýðubandalagið.
Meira mark verður hægt að taka á aukakosningunum, sem verða í Croydon í haust. Skoðanakannanir benda til, að þriðja aflið mundi geta unnið það sæti af Íhaldsflokknum með því að bjóða fram kvenhetjuna Shirley Williams.
Hins vegar er um það samkomulag milli sósíaldemókrata og Frjálslynda flokksins, að flokkarnir bjóði fram til skiptis í aukakosningum. Og nú er röðin komin að Frjálslynda flokknum, sem býður upp á lélegan frambjóðanda.
William Pitt hefur þrisvar tapað í Croydon, fyrst með 23% atkvæða árið 1974 og síðast með 10% atkvæða árið 1979. Hann er betra dæmi um venjulegan frambjóðanda en hin landsþekktu Jenkins og Williams.
Ekki er reiknað með, að Pitt nái kosningu. En horfur þriðja aflsins eru mjög bjartar ef hann nær um þriðjungi atkvæða. Það mundi sýna styrk þriðja aflsins utan og ofan við einstakar persónur.
Bretar þurfa að losna við leiftursókn Thatchers án þess að fá í staðinn þjóðnýtingarstefnu róttæklinganna Foots og Benns í Verkamannaflokknum. Þeir þurfa á að halda hinum gullna meðalvegi þriðja aflsins.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið