Luxemborgarar sjái um sig.

Greinar

Hið bjartsýna ráðgjafarfyrirtæki, Aviation Consulting, segir, að Flugleiðir verði að fá sér breiðþotu í Norður-Atlantshafsflugið næsta vor. Þær eru miklu neyzlugrennri en núverandi þotur Flugleiða og fást sérlega ódýrt.

Hins vegar getur hvert barn séð, að meira þarf til að gera Flugleiðir samkeppnishæfar í þessu flugi. Nú taka þær á sig 20% krók norður til Íslands og eyða þar að auki hinu sífellt dýrara bensíni í aukaflugtak í Keflavík.

Þar á ofan þurfa Flugleiðir að keppa við flugfélög á borð við Laker, sem nota miklu einfaldara og ódýrara kerfi markaðs og bókana. Og Laker, sem skilar hagnaði, mun áfram stjórna verðinu á Norður-Atlantshafi.

Hið bjartsýna Aviation Consulting segir, að bráðum komi betri tíð með hærri fargjöldum á þessari leið. Þetta er mjög orðum aukið. Fargjöldin kunna að hækka lítillega, en ekki meira en Laker þarf á að halda.

Verðfrelsið á Norður-Atlantshafi verður ekki aftur tekið. Meira að segja er verið að breiða það út um heiminn. Til dæmis hafa Laker og öflug brezk flugfarþegasamtök gert harða hríð að svikum Efnahagsbandalagsins við Rómarsamninginn.

Það er óðs manns æði að ímynda sér, að steindauð einokunarstofnun eins og IATA geti hindrað verðstríð í alþjóðlegu flugi og að vel rekin flugfélög eins og Laker muni ekki áfram geta boðið lág fargjöld án taprekstrar.

Til viðbótar við óhagstæða bensínnotkun og samkeppni við betur skipulögð flugfélög hafa Flugleiðir óhagræði af því, að önnur endastöðin er uppi í sveit. Frá Luxembourg er ekki eins auðvelt að komast til annarra staða og frá London.

Íslenzk stjórnvöld, sem illu heilli neyddu og styrktu Flugleiðir til að halda áfram Luxemborgarflugi, hafa sett tvö skilyrði fyrir nýjum 2,3 milljón króna styrki til Flugleiða. Þau eru millilending hér og sami styrkur frá Luxemborg.

Nú hafa stjórnvöld Luxemborgar neitað frekari styrkjum, en bjóða fyrirgreiðslur, sem meta má til 0,7-1,5 milljón króna eftir reikningsaðferðum. Það er þriðjungur eða helmingur þess, sem nauðsynlegt var talið.

Hvorki Íslandi né Flugleiðum ber skylda til að sjá um flugsamgöngur Luxemborgar eftir verðfrelsið á Norður-Atlantshafi. Okkur skipta mestu máli daglegar samgöngur við Kaupmannahöfn og tíðar samgöngur við London.

Til viðbótar þurfum við svo daglegar samgöngur til New York, bæði vetur og sumar. En við megum ekki rugla þeirri þörf saman við Luxemborgarflugið. Það síðara er allt annar handleggur, innanríkismál Luxemborgar.

Ef íslenzka ríkisstjórnin hefur 2,3 milljónir aflögu á ári, er miklu nær að nota þær til að greiða niður flugfarseðla til New York á þeim árstímum, þegar ætla mætti, að umferð yrði ella of lítil fyrir daglegt flug.

Íslenzka ríkisstjórnin á að tryggja samgöngur Íslands og ríkisstjórn Luxemborgar samgöngur Luxemborgar. Sameiginlega eiga þær ekki að reyna að keppa við Laker á lengri leið, meira bensíni og verri flugrekstri.

Luxemborgarævintýrið verður ekki rekið áfram nema í beinu flugi, án króksins hingað, með bensínsparnaði og bættum rekstri. Og fráleitt er að nota íslenzkt fé til að greiða niður farseðla óviðkomandi manna milli Luxemborgar og New York.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið