Hótel eru orðin svo þétt í Kvosinni, að rútur stöðva stundum umferð. Einkum gerist það í norðurenda Aðalstrætis, en einnig í Pósthússtræti. Nóg er komið af slíkum, þótt ekki komi hótel í Landsímahúsið og á Ingólfstorg. Borgin á ekki bara að bregðast við hugmyndum braskara, heldur hafa sjálf frumkvæði að hótelstefnu. Víða er gott pláss fyrir hótel í nágrenni miðbæjarins, svo sem á Héðinsreitnum við Ánanaust og á lóð gamla Hampiðjuhússins. Verðum að gera okkur grein fyrir vexti ferðaþjónustu fram í tímann og varðveita aðra vinnu á svæðinu. Við megum sízt fórna torgum miðborgarinnar undir rútur í bið.