Ef velvilji er einfeldningslegur, skammsýnn og þröngur, getur útkoman orðið önnur og jafnvel þveröfug við það, sem til var ætlazt. Moðhausar hafa spillt, eru að spilla og munu áfram spilla framförum á ótal sviðum.
Húsnæðisvandræðin í Reykjavík eru ágætt dæmi um þetta. Þar hefur vont ástand verið gert verra með aðgerðum góðviljaðra manna, meðan aðrir jafn velviljaðir menn eru að hvetja til ráðstafana, sem munu gera ástandið enn verra.
Að grunni til byggjast húsnæðisvandræðin á velmegun manna. Í stórum hlutum Reykjavíkur er mannfjöldi á íbúð kominn niður undir tvo. Kynslóðir búa minna saman en áður var og sumpart standa íbúðir meira eða minna auðar.
Þetta hefur verið reynt að leysa með byggingu nýs húsnæðis. Á síðustu fimmtán árum hafa verið byggðar tvær fjögurra herbergja íbúðir á hvern einstakling, sem fjölgað hefur í Reykjavík. Samt hafa húsnæðisvandræðin aukizt.
Sett hafa verið húsaleigulög, sem eiga að tryggja hagsmuni leigjenda, en hafa í raun hrætt eigendur frá því að bjóða til leigu. Þeir óttast einfaldlega að geta ekki losnað við leigjendur, þegar þeir þurfa að nota húsnæðið til annars.
Sem dæmi má nefna, að í lögunum er sérstaklega reynt að gæta hagsmuna einstæðra mæðra. Afleiðingin er sú, að sumir þora ekki að leigja einstæðum mæðrum, svo að möguleikar þeirra á húsnæði eru minni en áður.
Miklar kröfur eru nú settar fram um, að okurleiga verði hindruð með því að setja þak á húsaleigu, til dæmis 22,45 krónur á fermetra á mánuði. Í framkvæmd mundi þetta enn draga úr framboði húsnæðis.
Reistir hafa verið verkamannabústaðir utan hins frjálsa markaðskerfis og þá með verulegum takmörkunum á möguleikum eiganda til að leigja út eða selja. Auðvitað gerist hið venjulega, þegar markaðslögmálunum er kippt úr sambandi:
Sumar þessar íbúðir standa auðar, af því að eigandinn er að safna árum til að mega selja, en hann er fluttur annað. Ef hann leigði, mundi komast upp um hann. Þannig getur góðvilji á einu sviði valdið skaða á öðru.
Loksins hefur verið náð hinu mikilvæga markmiði að gefa mönnum kost á verðtryggðum reikningum í bönkum. En um leið hefur þetta haft snögg og hastarleg áhrif á vilja manna til að fjárfesta í steinsteypu í hefðbundnum stíl.
Bankainnistæður eru skattfrjálsar, viðhaldsfrjálsar og leigjendafrjálsar. Útleigð fasteign kostar hins vegar töluverða skatta, viðhald og svo óþægindin og áhættuna af viðskiptum við leigjendur, sem menn þekkja lítið eða ekki.
Ef menn vilja nýta sparifé fjölmargra einstaklinga til að lina húsnæðisvandræðin í Reykjavík, verður að koma á jafnræði í fjárfestingu í húsnæði með fjárfestingu í bönkum, bæði í arði og í þægindum, sem ekki verða mæld í fé.
En raunhæfasta leiðin til að draga úr húsnæðisvandræðum er að byggja upp hið almenna lánakerfi, svo að það geti lánað eins mikið og verkamannabústaðakerfið, án þess að íbúðirnar séu losaðar frá hinu frjálsa markaðskerfi.
Með því að fjármagna betur íbúðir þeirra, sem vilja byggja, og með því að freista manna til að leigja út íbúðir, er hægt að leysa vandann. Það er að vísu langtímalausn, en skammtímalausn er engin til. Góðviljamenn, sem það halda, gera bara illt verra.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið