Böndin berast að Færeyjum.

Greinar

Laxinn er sérkennilegur fiskur, sem fer sínar eigin leiðir. Hann syndir hundruð mílna um höfin. Og dæmi er til um, að lax hafi farið 5000 mílna leið. Um þessar matarferðir hans í söltum sjó er furðanlega lítið vitað.

Undarlegastur er laxinn ef til vill fyrir að sækja aftur upp ósaltar árnar til að fasta og hrygna, horast og deyja. En þar hafa mennirnir einmitt kynnzt honum. Jafnframt hefur verið trassað að kanna sjávarlíf hans.

Laxarannsóknum Íslendinga er til dæmis ekki komið fyrir í Hafrannsóknastofnuninni innan um aðra fiskifræði, svo sem eðlilegt væri. Þær eru stundaðar í sérstakri stofnun, sem hefur eingöngu litið á lax sem ferskvatnsfisk.

Í rauninni hefur Veiðimálastofnunin aðallega stundað heiftúðuga samkeppni við einkarekstur í seiðaeldi. Hún hefur látið semja reglugerðir og beitt hliðhollum yfirdýralækni til að koma slíkum rekstri fyrir kattarnef.

Fiskifræðingar okkar fylgjast nákvæmlega með ferðum þorsks, síldar, loðnu og annarra nytjafiska. Þeir geta rutt úr tölvum upplýsingum um stærðir stofna, stærðir hrygningarstofna og hvað annað, sem menn vilja vita.

Um laxinn er hins vegar lítið vitað annað en, að Danir og Færeyingar hafa tekið upp gífurlegar úthafsveiðar við mikla skelfingu laxveiðiþjóða beggja vegna Norður-Atlantshafs. Menn standa hreint á gati í varnarleysi sínu.

Nokkrir menn með Jakob V. Hafstein í broddi fylkingar hafa undanfarin misseri reynt að vekja athygli á þessu nýja vandamáli og krafizt opinberra aðgerða til að koma í veg fyrir, að laxveiði spillist í íslenzkum ám.

Dæmigert fyrir Veiðimálastofnunina er, að hún hefur reynt að gera sem minnst úr þessu. Hún segir, að einungis þrjú íslenzk laxamerki hafi fundizt við Færeyjar, alveg eins og hún haldi, að engu sé undan stungið.

Allra síðustu dagana er stofnunin farin að viðurkenna, að einhver hluti íslenzka laxins kunni að ganga til Færeyja. En hvert fer þá meirihlutinn? Fer hann kannski í einhverjar hallir Njarðar, þar sem hann er algerlega óhultur!

Ljóst má vera, að laxinn er einhvers staðar, að svo miklu leyti, sem hann er ekki við Færeyjar. Og hann verður veiddur, þegar hann finnst, ef hann er ekki þegar fundinn. Og þá er eins gott að kunna að bregðast við.

Í sumar hefur laxveiði hrunið í fjölmörgum íslenzkum ám. Hefur það rennt stoðum undir kenningu Jakobs V. Hafstein og fleiri manna um, að laxveiði Færeyinga sé okkur gífurlega hættuleg, – þótt það hafi ekki sannað hana.

Albert Guðmundsson alþingismaður hefur tekið málið upp á sína arma. Hann hefur lagt fyrir utanríkismálanefnd tillögu um að málið verði rannsakað og tekið inn í heildarmynd fiskveiðisamninga við Færeyinga og aðra.

Utanríkismálanefnd hefur því miður ekki enn tekið afstöðu til málsins, en gerir það vonandi upp úr mánaðamótum. Á meðan þurfa Pálmi Jónsson laxamálaráðherra og Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra að láta hefja rannsóknir.

Meðal annars þarf að fá leyfi til að merkja laxa við Færeyjar, svo að unnt sé að fá rétta mynd af því, hve mikið af honum leitar síðar í íslenzkar ár. Og enga samninga má gera við Færeyinga um veiðileyfi, meðan málið er í óvissu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið